Fótbolti

Ein besta knattspyrnukona heims sleit krossband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg er mikill markaskorari.
Ada Hegerberg er mikill markaskorari. Getty/ Emilio Andreoli

Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg spilar ekki meira á þessu tímabil eftir að hafa meiðst illa á hné.

Ada Hegerberg, sem skoraði þrennu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra og var kosin besta knattspyrnukona heims árið 2018, sleit krossband í hægra hné á æfingu með félagi sínu.

„Þetta er bakslag fyrir mig en ég ætla að komast í gegnum þetta af öllu hjarta og með allri orku minni,“ sagði Ada Hegerberg og bætti við: „Þið eigið eftir að sjá mitt besta og ég kem fljótt aftur,“ sagði Ada Hegerberg en hún er 24 ára gömul.



Ada Hegerberg hefur unnið Meistaradeild Evrópu fjögur ár í röð með Lyon og hún hefur unnið þrettán stóra titla á fyrstu fimm tímabilum sínum með franska liðinu þar sem hún hefur skorað 216 mörk í 177 leikjum.

Lyon er á góðri leið með að vinna fleiri titla á þessu tímabili en félagið er með þriggja stiga forskot á Paris Saint Germain í frönsku deildinni og er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Ada Hegerberg hefur skorað mest allra í sögu Meistaradeildarinnar og 9 af 49 mörkum hennar í Meistaradeildinni hafa komið á þessu tímabili. Hún er með 14 mörk í 12 deildarleikjum og alls 23 mörk í 17 leikjum í öllum keppnum.

Þessi meiðsli hafa ekki áhrif á norska landsliðið því Ada Hegerberg hefur ekki gefið kost á sér í landsliðið síðan árið 2017. Hún skoraði 38 mörk fyrir Noreg frá 2011 til 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×