Tónlist

Konfettí, reykur og vindvél á Kötlugosi um helgina

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Skrautlegasti kór landsins! 
Skrautlegasti kór landsins! 

Kvennakórinn Katla er tíu ára um þessar mundir og verður haldið uppá þann áfanga með kórleikhúsi í Tjarnarbíó.

„Frá fyrstu tíð hefur kórinn haft það að meginmarkmiði að valdefla konur í gegnum söng og sviðsframkomu. Hópurinn hefur átt góðu gengi að fagna og komið víða fram. Kvennakórinn Katla hefur lagt sitt á vogarskálarnar, bæði listrænt og samfélagslega séð, til dæmis með því að vekja athygli á réttindum kvenna, að afbyggja staðalmyndir um kvennlíkamann með þátttöku í gjörningalist og kanna nýjar leiðir til að ná til áhorfenda með kórleikhústónleikum.“ 

Hildigunnur Einarsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir

Kötlugos kórsýningin er unnin í samstarfi við leikstjóra, sviðshöfund, danshöfund og lýsingarhönnuð. 

„Á tónleikunum verður hefðbundnum kórgildum ögrað með kröftugum, valdeflandi hljómi þar sem kvenorkan verður allsráðandi en hefðbundið tónleikaform verður víðs fjarri. Þannig verða tónleikarnir í formi eins konar kórleikhúss þar sem mikil vinna verður lögð í sviðsframkomu, búninga, dansa og lýsingu. Konfettí, reykvél og vindvél munu koma mikið við sögu.“

Efnisval tónleikanna verður brot af því besta frá tíu ára sögu kórsins ásamt nýju og spennandi efni. Flutt verða lög meðal annars eftir Björk Guðmundsdóttur, Kate Bush og Imogen Heap í útsetningum kórstýra. Kórinn mun reyna fyrir sér í powerballöðum unglingsáranna, gleðisprengjulögum í útsetningum Maríu Magnúsdóttur og kórverkum frá Finnlandi og Búlgaríu. 

Kórstýrur eru Hildigunnur Einarsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir. Gestur Katlanna á tónleikum verður Þórdís Claessen slagverksleikari. Sviðshöfundur ásamt kórstýrum er Sigríður Eyrún Friðriksdóttir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.