Enski boltinn

Salah segist vera bestur í heimi í sinni stöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 22 mörk.
Mohamed Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 22 mörk. getty/John Powell

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool og egypska landsliðsins, segist vera bestur í heimi í sinni stöðu.

Salah hefur átt frábært tímabil með Liverpool og skorað þrjátíu mörk í öllum keppnum. Hann var nýverið valinn leikmaður ársins á Englandi af samtökum íþróttafréttamanna.

Egyptinn segir að enginn leikmaður í heiminum standi honum framar, það er að segja af þeim sem spila sömu stöðu. Og hann segir að tölfræðin styðji þá fullyrðingu.

„Ef þú berð mig saman við einhvern annan leikmann í minni stöðu, ekki bara í mínu liði heldur í heiminum, sérðu að ég er bestur,“ sagði Salah.

„Ég einbeiti mér alltaf að vinnunni minni, geri mitt besta og tölurnar tala sínu máli. Ég vil alltaf búa til nýja áskorun fyrir mig, vinna á annan hátt, skipta sköpum og það er mitt hlutverk.“

Salah og félagar hans í Liverpool eiga enn möguleika á að vinna fjórfalt. Þeir eru þegar búnir að vinna deildabikarinn, eru komnir í úrslit Meistaradeildar Evrópu og ensku bikarkeppninnar og eru í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool mætir Chelsea í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á laugardaginn. Salah hefur ekki enn orðið bikarmeistari með Liverpool en getur bætt úr því eftir tvo daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×