Lífið

Bára og Sól­ey til­nefndar til tón­listar­verð­launa Norður­landa­ráðs

Elísabet Hanna skrifar
Sóley og Bára eru tilnefndar í ár.
Sóley og Bára eru tilnefndar í ár. Samsett.

Bára Gísladóttir og Sóley Stefánsdóttir eru tilnefndar til tónlistarverðlauna Norðulandaráðs 2022. Alls voru gefnar út tólf tilnefningar en verðlaunin munu fara fram þann 1. nóvember í Helsingfors í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Tilnefnd eru verk norrænna tónskálda úr ýmsum flokkum tónlistar eins og alþýðutónlist, raftónlist og konseptverk á borð við nonett fyrir flautur. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1965. Þeim er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi en annaðhvert ár eru þau veitt núlifandi tónskáldi til skiptis við tónlistarhóp eða flytjanda.

Bára sem er íslenskt tónskáld og kontrabassaleikari er tilnefnd fyrir verkið „Víddir“(fyrir níu flautur). Verk hennar eru talin vera nýstárleg og djörf. Tónlist Báru hefur verið flutt af virtum hljóðfærahópum og hljómsveitum en sjálf er hún einnig virkur tónlistarflytjandi.

Sóley sem byrjaði í indísenunni á Íslandi er tilnefnd fyrir verkið „Mother Melancholia“ sem er plata sem er sögð flæða glæsilega í einkennandi kaflaskiptingum. Áður hefur hún meðal annars gefið út plötuna Theatre Island og fleiri plötur sem hafa gert henni kleift að ferðast um heiminn og leika tónlist sína.

Norðurlandaráð stendur árlega fyrir fimm verðlaunum en það eru: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.