Enski boltinn

Ten Hag á­nægður með sönginn sem stuðningsmenn United sömdu um hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag fær margar spurningar um Manchester United þessa dagana.
Erik ten Hag fær margar spurningar um Manchester United þessa dagana. EPA-EFE/KOEN VAN WEEL

Erik ten Hag tekur við liði Manchester United í sumar, eins og flestir vita, en hann er enn stjóri Ajax til loka þessa tímabils.

Það þýðir um leið að blaðamannafundir Ajax-liðsins snúast orðið svolítið mikið um enska stórliðið enda vilja margir blaðamenn fá að heyra skoðanir Ten Hag á ástandinu hjá Manchester United.

Stuðningsmenn United eru meira en tilbúnir að fá nýtt blóð inn í félagið en stjórarnir hafa komið og farið síðan að Sir Alex Ferguson hætti með liðið.

Ralf Rangnick hefur ekki náð stjórn á liðinu og United missti fyrir vikið af Meistaradeildinni á næstu leiktíð sem eru mikil vonbrigði.

Það er því kannski ekkert skrýtið að stuðningsmenn United séu þegar farnir að syngja til næsta stjóra og nýr söngur um Erik ten Hag vakti lukku hjá honum sjálfum.

Stuðningsmennirnir leyfa sér nefnilega að dreyma um betri tíma undir stjórn nýja stjórans og voru nokkuð sniðugir þegar þeir settu saman þennan nýjan söng um Erik ten Hag.

Þeir nýta sér það að nafn hans er ten Hag sem er hægt að skilja á ensku sem tíu Hag.

Nýi söngurinn snýst því um að telja upp í tíu Hag með því að byrja á einn Hag (one Hag), tveir Hag (two Hag), þrír Hag (three Hag) og svo framvegis þegar til að þeir ná að telja upp í tíu Hag (ten Hag).

Ten Hag var einmitt spurður út í þennan söng um sig á blaðamannafundi Ajax á dögunum. Hann var sáttur eins og sjá má hér fyrir ofan og lesa hér fyrir neðan.

„Má ég spyrja þig einnar spurningar í viðbót um Manchester United. Sástu nýja sönginn?“ spurði hollenski blaðamaðurinn.

„Já, ég sá hann. Hann er góður. Þeir eru hugvitssamir,“ sagði Erik ten Hag brosandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×