Sport

Vöknuð eftir fjóra mánuði í dái

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amy Pieters hefur verið mjög sigursæl á ferli sínum og hér fagnar hún sigri á Evrópumóti í Alkmaar fyrir nokkum árum.
Amy Pieters hefur verið mjög sigursæl á ferli sínum og hér fagnar hún sigri á Evrópumóti í Alkmaar fyrir nokkum árum. EPA-EFE/Vincent Jannink

Þrefaldi heimsmeistarinn Amy Pieters hefur náð meðvitund á ný eftir að hafa legið í dái síðan í desember. Félagið hennar, SD Worx, sagði frá þessu í fréttatilkynningu.

Þessi þrítuga hollenska hjólreiðakona datt í æfingabúðum á Spáni í jólamánuðinum og fékk slæmt höfuðhögg. Hún hafði verið í dái síðan.

„Ástandið á Amy Pieters hefur breyst. Hún er nú með meðvitund. Það þýðir að hún getur átt örlítil samskipti. Amy þekkir fólk og skilur það sem er sagt við hana,“ segir í fréttatilkynningu SD Worx.

„Læknarnir vita enn ekki hvaða einkenni og getu hún hefur eftir þessi heilameiðsli,“ segir ennfremur þar.

Amy Pieters fór í aðgerð á Alicante í desember þar sem læknar björguðu lífi hennar. Í byrjun janúar var hún síðan flutt á sjúkrahús í Hollandi í frekari meðferð og umönnun.

SD Worx segir að hún hafi síðan um miðjan febrúar verið í sérstakri og ákafri meðferð.

Pieters er hollenskur meistari í götuhjólreiðum en hún varð líka á sínum tíma þrisvar sinnum heimsmeistari í brautarhjólreiðum. Hún hefur einnig einu sinni orðið Evrópumeistari í götuhjólreiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×