Sport

„Ætlum bara einu sinni aftur til Þorlákshafnar“

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristófer Acox var nálægt þrefaldri tvennu í kvöld
Kristófer Acox var nálægt þrefaldri tvennu í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Kristófer Acox, leikmaður Vals, var afar ánægður með að vera aðeins einum leik frá því að komast í úrslitin í Subway-deild karla. Valur vann tólf stiga sigur 87-75.

„Það er alltaf skemmtilegra að vinna á heimavelli og fá að fagna með sýnum áhorfendum. Stuðningurinn var frábær, það var sterkt að vinna í Þorlákshöfn og þurfum bara að fara einu sinni þangað í viðbót þar sem við ætlum að klára einvígið,“ sagði Kristófer Acox eftir leik. 

Kristófer var í skýjunum eftir leik og hrósaði hann liðsheildinni sem var afar góð að hans mati.

„Mér fannst samheldnin standa upp úr, það voru allir á sömu blaðsíðu og við brotnuðum ekki þrátt fyrir áhlaup Þórs.“

„Þór er frábært sóknarlið og við gerum alltaf ráð fyrir áhlaupum frá þeim en við héldum haus og héldum áfram að spila okkar bolta án þess að brotna sem er mjög jákvætt.“

Kristófer var mjög ánægður með sinn leik og sérstaklega hvað hann gaf margar stoðsendingar sem voru átta talsins.

„Mér fannst ég spila vel, ég held ég hafi aldrei verið með jafn margar stoðsendingar og ef við hefðum sett niður fleiri skot þá hefði ég endað með þrefalda tvennu,“ sagði Kristófer Acox og endaði á að skila kveðju á útvarpsþáttinn Brodies.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×