Bíó og sjónvarp

Dómari gekk út þegar Giuli­ani var af­hjúpaður í sjón­varps­þætti

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það kom mörgum á óvart þegar í ljós kom að Rudy Giuliani leyndist á bakvið grímuna.
Það kom mörgum á óvart þegar í ljós kom að Rudy Giuliani leyndist á bakvið grímuna. Vísir/Getty

Rudy Giuliani, fyrrum lögfræðingur Donald Trump og borgarstjóri New York, var afhjúpaður í þættinum The Masked Singer í gær og það varð til þess að einn dómaranna gekk út.

Sjónvarpsþátturinn The Masked Singer hefur verið vinsæll víða um heim síðustu misserin en þar koma þekktir einstaklingar fram í grímubúningi og syngja. Áhorfendur kjósa þá keppendur sem þeir vilja sjá áfram og þeir sem detta út þurfa að taka grímuna af og sýna hverjir þeir eru.

Í vikunni var sjónvarpsþátturinn sýndur á Fox sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum og er óhætt að segja að áhorfendur hafi verið hissa þegar í ljós kom hver leyndist á bakvið grímubúninginn.

Það var enginn annar en Rudy Giulani, fyrrum lögfræðingur Donald Trump og borgarstjóri í New York. 

Giulani var einn af helstu bandamönnum Trump í forsetatíð hans sem og í ólátunum eftir að Joe Biden var kjörinn forseti. Hann var meðal annars í forgrunni þegar eftirminnilegur blaðamannafundur Trump við Four Seasons Total Gardening var haldinn sem vakti mikla athygli. Þá missti hann lögfræðiréttindi sín fyrir að dreifa falsfréttum um forsetakosningarnar.

Eins og sést í myndbandinu hér fyrir ofan eru áhorfendur vægast sagt hissa þegar Giulani er afhjúpaður. Giulani er mjög umdeildur og grínistinn Ken Jeong, einn af dómurunum, gekk út þegar í ljós kom að Giulani stæði á sviðinu.

Giulani söng lagið Bad to the bone með George Thorogood sem mörgum finnst eflaust viðeigandi. Framkoma Giulani í þættinum hefur vakið sterk viðbrögð og tímaritið Variety hefur sagt hana þá verstu í þáttunum hingað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×