Innlent

Magnús segir þung­bært að sjá greiddar bætur til fólks sem kom fjór­menningunum í fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundar og Geirfinnsmálið fyrir Hæstarétti í janúar 1980.
Guðmundar og Geirfinnsmálið fyrir Hæstarétti í janúar 1980. LJÓSMYNDASAFN REYKJAVÍKUR

Magnús Leópoldsson, einn þeirra fjögurra sem sat að ósekju rúma hundrað daga í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum, segir það þungbært fyrir sig og félaga sína horfa upp á fólkið sem dró þá saklausa inn í málið nú fá greiddar „himinháar bætur, án þess að fyrir liggi niðurstaða Hæstaréttar um hvort og hvað þá hvaða áhrif sök þeirra eigi að hafa á bótagreiðslur.“

Þetta kemur fram í samtali Magnúsar við Fréttablaðið í morgun. Hann gagnrýnir sömuleiðis harðlega aðkomu stjórnmálamanna að því að greiða bætur til þeirra sem komu fjórmenningunum í fangelsi með röngum sakargiftum. Hann hafi á tilfinningunni að verið sé að greiða bætur fyrir að bera á fjórmenningana rangar sakir.

Í samtali við blaðið segir Magnús að settur ríkissaksóknari hafi ekki rökstutt nægilega niðurstöðuna, sem leiddi svo til sýknudóms Hæstaréttar. Saksóknari hafa einungis gert kröfu um að rétt væri að sýkna þau Sævar Marínó Ciesielski, Kristján Viðar Júlíusson og Guðjón Skarphéðinsson af mannshvörfum. Sakfellingar sem snúi að öðrum afbrotum standi hins vegar eftir óhaggaðar, þar með talið rangar sakargiftir.

Nefnir Magnús að í hæstarétttardómnum frá 1980 viðurkenni fólkið að það hafi verið samantekin ráð sakborninganna að bendla þá Magnús, Einar Bollason, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson – sem oft hafa verið kallaðir Klúbbsmenn í málinu – við málið, torvelda rannsóknina, væntanlega til að dylja eigin glæpi. 

Rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafi ekki einungis snúið að mannshvörfum, heldur einnig nauðgun, þjófnað fjársvik, brennu, skjalafals, smygl og sölu á fíkniefnum og svo rangar sakargiftir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×