Erlent

Friðar­við­ræður báru engan árangur og ó­ljóst hvort haldið verði á­fram á morgun

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Viðræðurnar voru haldnar í Istanbúl í Tyrklandi í morgun. Erdogan Tyrklandsforseti ávarpaði sendinefndirnar í upphafi fundarins. 
Viðræðurnar voru haldnar í Istanbúl í Tyrklandi í morgun. Erdogan Tyrklandsforseti ávarpaði sendinefndirnar í upphafi fundarins.  ap

Friðarviðræður milli Rússa og Úkraínumanna í Tyrklandi stóðu stutt í morgun. Þar var möguleikinn á vopnahléi ræddur og öryggistryggingar Úkraínu ræddar. Ekkert kom út úr fundinum og er óljóst hvort sendinefndir landanna haldi áfram að funda á morgun.

Það andaði köldu milli sendi­nefnda Rússa og Úkraínu­manna og tókst með­limir þeirra ekki í hendur þegar þeir mættu til fundar í Istanbúl í Tyrk­landi í morgun.

Þetta er í fyrsta skipti í tæpar þrjár vikur sem sendi­nefndirnar hittast í per­sónu til að reyna að semja um frið.

Erdogan Tyrk­lands­for­seti tók á móti og bauð þær vel­komnar á fundinn. Hann sagði það í þeirra höndum að stöðva hörmungar stríðsins.

„Það er öllum í hag að koma á vopna­hléi og friði eins fljótt og auðið er. Við teljum að við séum komin að þeim tíma­punkti þar sem við verðum að ná fram raun­veru­legum árangri með við­ræðunum,“ sagði Erdogan þegar hann á­varpaði sendi­nefndirnar.

Rúss­neski auð­jöfurinn Roman Abramo­vich, sem er einna þekktastur fyrir að eiga enska knatt­spyrnu­liðið Chelsea, var mættur á fundinn í morgun en hlut­verk hans í við­ræðunum er ó­ljóst.

Í gær var greint frá því að bæði Abramo­vich og þrír með­limir Úkraínsku sendi­nefndarinnar sem mættu til friðar­við­ræðna í byrjun mánaðarins teldu að eitrað hefði verið fyrir sér þar.

Hlutverk Abramovich í viðræðunum er óljóst en hann virðist áfjáður í að koma á friði. EPA-EFE/ANTHONY ANEX

Eftir fundinn urðu þeir veikir, fór að svíða í augun og húðin að flagna af and­liti og höndum þeirra.

Áður en við­ræðurnar hófust í dag beindi utan­ríkis­ráð­herra Úkraínu því til allra við­staddra að forðast það að drekka og borða þar og reyna að sleppa því að snerta yfir­borð hluta.

Enn langt í land

Þrátt fyrir bjart­sýni Erdogans Tyrk­lands­for­seta við upp­haf fundarins eru vest­rænir stjórn­mála­grein­endur ekki eins von­góðir um að nefndirnar nái saman á næstunni.

Enn er langt á milli þeirra; Pútín Rúss­lands­for­seti er sagður fastur á því að bakka ekki með her­lið sitt án þess að fá nokkuð af land­svæði Úkraínu­manna í staðinn en Úkraínu­menn segjast stað­ráðnir í því að láta ekkert af landi sínu af hendi.

Peter Ricketts, fyrrum full­trúi Breta í NATO, ræddi við er­lenda fjöl­miðla um við­ræðurnar í morgun. Hann sagði af­stöðu Úkraínu­manna til NATO eða Evrópu­sam­bandsins ekki lykil­mál í við­ræðunum nú.

„Aðal­at­riðið er hvað verði um svæðin sem rúss­neski herinn hefur þegar náð stjórn á. Ég hef ekki trú á því að Pútín sé til­búinn að láta af hendi svæði eins og Mariu­pol þegar hann hefur náð tökum á þeim,“ sagði Ricketts.

Peter Ricketts sagðist mjög skeptískur á að Pútín myndi sætta sig við að láta það landsvæði sem hann hefur unnið aftur af hendi.ap

Pattstaða í stríðinu

Borgin Mariu­pol hefur verið um­setin af Rússum nánast frá upp­hafi inn­rásarinnar og virðist nú við það að falla.

Að öðru leyti virðist al­ger patt­staða komin upp í stríðinu. Rússar hafa lítið sem ekkert náð að sækja fram síðustu daga og Úkraínu­menn náð ein­hverju af svæði sínu til baka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×