Sport

Guðbjörg Jóna alveg við Íslandsmetið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir Vísir/Sigurjón

ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppti í dag í undanrásum í 60 metra hlaupi kvenna á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem hófst í morgun í í Belgrad í Serbíu.

Guðbjörg Jóna kom síðust í mark í sínum riðli og komst því ekki áfram upp úr undanrásunum.

Hún hljóp á 7,47 sekúndum og var alveg við Íslandsmetið sitt sem er 7,43 sekúndur. Guðbjörg setti Íslandsmetið sitt í janúar.

Þetta er fyrsta stórmót hennar í fullorðinsflokki en það er ekki keppt í hennar bestu grein innanhúss en það er 200 metra hlaup.

Hlaupið byrjaði reyndar ekki vel því hin brasilíska Rosangela Santos þjófstartaði og var fyrir vikið dæmd úr leik. Það þurfti því að byrja upp á nýtt.

Hin bandaríska Mikiah Brisco vann riðilinn á 7,03 sekúndum og önnur var Géraldine Frey frá Sviss á 7,11 sekíndum. Zoe Hobbs frá Nýja Sjálandi setti álfumet á 7,13 sekúndum og hin hollenska Patrizia van der Weken setti hollenskt met þegar hún í mark á 7,21 sekúndu.

Baldvin Þór Magnússon keppir seinna í dag í undanrásum í 3000 metra hlaupi en hlaupið hans á að hefjast klukkan 12.25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×