Innlent

Per­sónu­leg neysla Ágústs að stórum hluta fjár­mögnuð með sóknar­gjöldum

Eiður Þór Árnason skrifar
Saksóknari í málinu segir málið snúast um gróf og stórfelld auðgunar- og hagnaðarbrot bræðranna Ágústs Arnars og Einars Ágústssonar, hátt í 90 milljóna króna fjársvik, peninga sem ákærðu fengu án þess að raunveruleg trúariðkun hafi verið í gangi hjá félaginu.
Saksóknari í málinu segir málið snúast um gróf og stórfelld auðgunar- og hagnaðarbrot bræðranna Ágústs Arnars og Einars Ágústssonar, hátt í 90 milljóna króna fjársvik, peninga sem ákærðu fengu án þess að raunveruleg trúariðkun hafi verið í gangi hjá félaginu. vísir/vilhelm

Bræðurnir Einar og Ágúst Arnar Ágústsynir eru sakaðir um að hafa beitt blekkingum og veitt villandi upplýsingar um að Zuism uppfyllti skilyrði um skráð trúfélög og ætti þar með rétt á fjárframlögum frá ríkinu. Þetta hafi verið gert af skýrum ásetningi og peningarnir nýttir í eigin þágu.

Þriðji og lokadagur aðalmeðferðar í máli héraðssaksóknara gegn bræðrunum sem stýrðu trúfélaginu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir eru sakaðir um að hafa svikið hátt í 85 milljónir króna út úr íslenska ríkinu og fyrir að hafa þvættað ávinninginn. Báðir neita sök. Hvorugur þeirra var viðstaddur dómhaldið.

Snúist ekki um trúfrelsi hinna ákærðu

Finnur Vilhjálmsson saksóknari sagði í málflutningi sínum fyrir dómi að það væri skýrt að málið snúist ekki um trúfrelsi hinna ákærðu eða nokkurs annars. Ákærðu sé frjálst að trúa því og tilbiðja það sem þeim sýnist en sá réttur sé eitt og hvort trúfélag eigi rétt á fjárframlagi úr ríkissjóði allt annað. Um það gildi önnur skilyrði.

Skýrt sé í lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög að ekki þurfi að tilkynna ríkinu um stofnun slíkra félaga en heimilt sé að skrá þau hjá ríkinu. Ákæruvaldið byggi á því að hinir ákærðu hafi viljandi blekkt stjórnvöld þegar sóst var eftir því að trúfélagið yrði skráð og reynt að viðhalda þeirri blekkingu.

Saksóknari sagði það lífseigan misskilning að ríkið innheimti sóknargjöld sem séu eyrnamerkt einstaklingum. Framlög til trú og lífsskoðunarfélaga komi frá öðrum skatttekjum ríkisins og í reynd sé um að ræða styrki til trúfélaga sem greiddir séu af almennu skattfé samkvæmt ákveðnum viðmiðum.

Finnur Vilhjálmsson saksóknari.Vísir/Vilhelm

Enginn virkur átrúnaður

Saksóknari bætti við að ekkert hafi komið fram í málinu um að nokkurs staðar á byggðu bóli sé virkur átrúnaður á kenningarkerfi Zuism líkt og stofnendur trúfélagsins hafi haldið fram, meðal annars í umsókn um skráningu félagsins.

Málið snúist um gróf og stórfelld auðgunar- og hagnaðarbrot, hátt í 90 milljóna króna fjársvik, peninga sem ákærðu fengu án þess að raunveruleg trúariðkun hafi verið í gangi hjá þessu félagi. Það væri eðli málsins samkvæmt algjör forsenda þess að félagið nyti þessara fjármuna.

Saksóknari sagði málið ekki síður snúa um peningaþvætti og í hvað peningarnir hafi farið. Ekki verði séð að þeir hafi farið í að reka raunverulega trúarlega starfsemi.

Blekkingum hafi verið beitt þegar sótt var um skráningu félagsins. Þó sé ekki byggt á því í málinu sem lið í refsiverðri háttsemi að ákærðu hafi vakið þessa röngu hugmynd til að fá skráningu. Það sé byggt á því að þeir hafi styrkt og hagnýtt sér þessa röngu hugmynd til að fá fjármunina.

Gögn í besta falli villandi

Að mati ákæruvaldsins sýna gögn að engin raunveruleg trúarviðleitni hafi verið á bak við trúfélagið strax í upphafi. Gögn sem hafi verið lögð fram virðist hafa verið rangfærð eða í besta falli verið villandi.

Saksóknari vísaði til laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og sagði meðal helstu skilyrða fyrir skráningu trúfélaga að þar sé lögð stund á átrúnað eða trú, félagið hafi náð vissri fótfestu, þar sé virk og stöðug starfsemi og loks að kjarni félagsmanna taki þátt í starfsemi þess og styðji lífsgildi félagsins í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um.

Ákæruvaldið telur að ekkert af þessum atriðum hafi verið fullnægt. Félagið hafi því ekki átt rétt á áframhaldandi skráningu á grundvelli laganna og jafnframt ekki rétt á sóknargjöldum.

Móðurkirkjan í Delaware

Saksóknari sagði að lögum samkvæmt sé sóknargjöldum ætlað að standa undir kostnaði viðkomandi trú- eða lífskoðunarfélags við að stunda viðkomandi átrúnað eða trú. Það sé forsenda og eini tilgangur slíkrar útgreiðslu til trú- og lífsskoðunarfélaga.

Saksóknari kom einnig inn á að samkvæmt áðurnefndum lögum skuli leggja fram nákvæmt félagatal með umsókn um skráningu. Félagatalið sem hafi verið gefið upp með upphaflegri skráningarumsókn virðist hafa verið í besta falli vafasamt.

Þá hafi engin svör fengist um meinta móðurkirkju Zuism í Delaware í Bandaríkjunum sem ákærðu hafi vísað til. Hún virðist í besta falli hafa verið eitthvað sem Ágúst hafi verið að sýsla sjálfur en hann bjó í tiltekinn tíma í Delaware.

Voru fljótlega þrír

Í umsókn um skráningu Zuism sem trúfélags sem send var til innanríkisráðuneytisins árið 2012 kom fram að 22 meðlimir væru í félaginu. Saksóknari sagði að erfitt hafi reynst að fá nánari upplýsingar um þessa meðlimi. Raunar hafi komið fram í vitnisburði Ólafs Helga Þorgrímssonar, sem stofnaði trúfélagið ásamt Einari og Ágústi og var upphaflega skráður forstöðumaður þess, að þetta fólk hafi ekki haft neitt með félagið að gera. Því væri ekki hægt að skilja málið öðruvísi en að þetta fólk hafi verið sett á lista í þeim eina tilgangi að uppfylla skilyrði stjórnvalda um meðlimafjölda.

Fljótlega eftir að trúfélagið fékk skráningu hafi einungis þrír verið skráðir í félagið. Því hafi frá upphafi ekki verið neinn kjarni félagsmanna heldur einungis stofnendur Zuism.

Einnig sagði saksóknari að samskipti sem stofnendur áttu um þann tíma sem reynt var að fá það skráð gefi til kynna að það hafi ekki vakið fyrir þeim eiginleg ástundun trúarbragða eða starfsemi tengd því.

Trúleysingjar tóku félagið yfir

Hópur trúleysingja með Snæbjörn Guðmundsson og Ísak Andra Ólafsson í forsvari tók stuttlega yfir stjórn Zuism árið 2015 og lofuðu þá að greiða sóknargjöld út til félagsmanna. Á stuttum tíma fór fjöldi þeirra úr innan við fimm í um þrjú þúsund.

Saksóknari undirstrikaði að Einar og Ágúst hafi ekkert haft með þessa fjölgun að gera, en þrátt fyrir það hafi þeir síðar fengið fjármunina í sínar hendur. Bræðurnir stjórnuðu samtengdu rekstrarfélagi Zuism og náðu síðar aftur stjórn á trúfélaginu sjálfu.

Millifærslur til dótturfélags og á persónulegan reikning

Að sögn ákæruvaldsins fékk rekstrarfélag Zuism trúfélags rúmar 84 milljónir króna greiddar frá ríkissjóði. Þegar bankareikningurinn var handlagður var lokastaða hans 1,2 milljónir og því búið að ráðstafa nánast öllu fénu með einum eð öðrum hætti.

Samkvæmt gögnum millifærði Einar um 46 milljónir króna til EAF ehf., dótturfélags Zuism, sem var undir stjórn hans.

Þar að auki sagði saksóknari að um 11 milljónir hafi farið til Einars og Ágústs í gegnum millifærslur og peningaúttektir, 9 milljónir farið í lögfræðikostnað, 6,6 milljónir út í gegnum debetkortafærslur Ágústs, og þar af 3,3 milljónir í reiðufjárúttektir.

Samkvæmt skattframtali Ágústs var hann tekjulítill á þessum tíma og telur ákæruvaldið því að persónuleg neysla hans hafi af stórum hluta verið fjármögnuð með debetkorti Zuism.

Ef seðlainnlagnir á bankareikning Ágústs árið 2018 séu síðan bornar saman við reiðufjárúttektir hjá Zuism og tímasetningar skoðaðar sé allt útlit fyrir að hann hafi verið að flytja peninga yfir á sinn persónulega reikning.

Fjármunir nýttir í eigin þágu

Saksóknari bætti við að ljóst væri að hinir ákærðu hafi ekki nýtt fjármunina frá ríkinu í eiginlega trúarstarfsemi heldur í allt aðra hluti, og þar á meðal í sjálfa sig. Eru þetta greinileg merki um fjársvik Einars og Ágústs.

Að mati ákæruvaldsins hafi markmið ákærðu verið að komast í peningana og síðan tryggja að þeir myndu halda áfram að flæða til félagsins.

Telur saksóknari að þrátt fyrir að Ágúst hafi verið skráður forstöðumaður Zuism trúfélags hafi bræðurnir stýrt því saman. Á meðan Ágúst hafi verið í forsvari fyrir félagið hafi Einar mest séð um fjármálin og því bæru þeir sameiginlega ábyrgð.

Að mati ákæruvaldsins er hæfileg refsing Einars, verði hann sakfelldur í öllum ákæruliðum, tveggja ára og níu mánaða fangelsi. Það komi til lækkunar hjá Ágústi að hann sé með hreint sakavottorð og er því farið fram á tveggja ára og þriggja mánaða fangelsi yfir honum.


Tengdar fréttir

Áköf fram­ganga lög­mannins vís­bending um að eitt­hvað meira héngi á spýtunni

Fulltrúi sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra sem hefur eftirlit með skráðum trúfélögum og lífskoðunarfélögum segir að hann hafi frá upphafi haft efasemdir um lögmæti trúfélagsins Zuism. Hann hafi verið beittur blekkingum þegar hópur fólks tók yfir félagið með það að markmiði að endurgreiða sóknargjöld.

Segist trúaður en að Zuism hafi skuldað þeim fé

Einar Ágústsson sagði að uppsöfnuð skuld trúfélagsins Zuism við hann og bróður hans skýrði einhverjar þeirra millifærslna af reikningum félagsins til þeirra og félaga þeirra í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir Ágúst Arnar Ágústsson eru ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við Zuism.

Gat litlu svarað um fjármál Zuism og ráðstöfun fjármuna

Fátt var um svör og skýringar þegar Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður Zuism, var spurður út í fjármál félagsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Ágúst og bróðir hans Einar eru ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×