Innlent

Níu­tíu prósent Ís­lendinga hlynnt mót­töku flótta­fólks frá Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Í könnuninni segjast um sjötíu prósent aðspurðra vera á því að Evrópusambandið og NATO geri of lítið til að hjálpa Úkraínu.
Í könnuninni segjast um sjötíu prósent aðspurðra vera á því að Evrópusambandið og NATO geri of lítið til að hjálpa Úkraínu. EPA

Rúm níutíu prósent landsmanna eru hlynnt því að Ísland taki á móti flóttafólki frá Úkraínu.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Svipað svarhlutfall fæst þegar spurt er um afstöðu til fjárhagsstuðnings þjóða heims við Úkraínu vegna innrásar Rússa.

Þá eru sjötíu prósent aðspurðra á því að Evrópusambandið og NATO geri of lítið til að hjálpa Úkraínu.

En þegar fólk er spurt hvort NATO ætti að senda her inn í Úkraínu kemur annað hljóð í strokkinn, innan við helmingur svarenda er á því að það ætti að gera og tæp fjörutíu prósent eru því andvíg.

Í blaðinu segir einnig frá því að 49 prósent þeirra sem segjast kjósa Vinstri græna séu hlynnt aðild Íslands í NATO, 28 prósent segjast mótfallin og 23 prósent svöruðu „hvorki né“. Það hefur alla tíð verið á stefnuskrá flokksins að Ísland segi sig úr bandalaginu.

Um könnunina segir að hún hafi verið gerð dagana 4. til 10. mars, netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 2.300 manns og svarhlutfallið 52 prósent.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×