Innlent

Sakar Agnieszku um rógburð og segir engar athugasemdir gerðar við viðskipti Eflingar

Eiður Þór Árnason skrifar
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, og Agnieszka Ewa Ziółkowska, fráfarandi formaður.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, og Agnieszka Ewa Ziółkowska, fráfarandi formaður.

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, segir að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hafi ekki gert neinar athugasemdir við viðskipti stéttarfélagsins við vefhönnunarfyrirtækið Sigur vefstofu.

Fjallað var um það í síðustu viku að Efling hafi samið við Andra Sigurðsson, sem meðal annars er þekktur fyrir aðkomu sína að Jæja-hópnum, um vefsíðugerð. Kostnaður við samninginn er sagður hafa hlaupið á mörgum, ef ekki tugum, milljóna króna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu ýjaði Agnieszka Ewu Ziółkowska, sitjandi formaður Eflingar, að því á nýlegum fundi trúnaðarráðs að ekki hafi verið staðið að samningum við Andra með lögmætum hætti og að hún, sem formaður Eflingar, væri að „rannsaka“ málið.

Viðar segir að Agnieszka hafi óskað eftir athugun Deloitte, sem fari með endurskoðun ársreikninga Eflingar, og félagið hafi nú komist að áðurnefndri niðurstöðu.

Neitað að veita skýringar

„Fráfarandi formaður, Agnieszka Ewa Ziółkowska, hefur borið út róg um að ég sé ábyrgur fyrir einhvers konar fjármálamisferli í tengslum við viðskipti Eflingar við umrætt fyrirtæki í tíð minni sem framkvæmdastjóri félagsins. Gerði hún þetta á fundi trúnaðarráðs Eflingar þann 16. febrúar sl. að mér fjarstöddum. Neitaði hún að veita lögmanni mínum skýringar eða gögn til stuðnings ummælum sínum þegar hann óskaði eftir því,“ segir Viðar í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Ónafngreindir einstaklingar hafi í kjölfarið sett sig í samband við fjölmiðla og látið hafa eftir sér ummæli „til þess gerð að málinu yrði slegið upp með tortryggilegum hætti“ gagnvart Viðari og hans störfum.

„Halldóra Sveinsdóttir, þriðji varaforseti ASÍ, hefur jafnframt í samtölum við fjölmiðla tekið undir með þessum órökstuddu ásökunum og talað um fjárdrátt og önnur ótilgreind lögbrot.

Eftir athugun Deloitte liggur fyrir að dylgjur fráfarandi formanns Eflingar og þriðja varaforseta ASÍ eru með öllu tilhæfulausar,“ segir Viðar. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×