Lífið

Katla og Reykjavíkurdætur áfram í Söngvakeppninni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Reykjavíkurdætur.
Reykjavíkurdætur. RÚV

Reykjavíkurdætur og Katla hafa tryggt sér sæti í úrslitum Söngvakeppninnar en seinni undankeppnin fór fram á RÚV í kvöld. Þá var laginu Don´t you know með Má og Ísold bætt við sem aukalagi í úrslitum.

Katla kom fram í kvöld með lagið Þaðan af sem samið er af þeim Hafsteini Þráinssyni, Snorra Beck, Jóa P og Króla. Lagið Tökum af stað með Reykjavíkurdætrum var síðan seinna lagið sem tilkynnt var að færi áfram en þátttaka þeirra í keppninni hefur vakið töluverða athygli.

Þá var tilkynnt að framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar hefði valið eitt lag í viðbót sem færi áfram í úrslit fyrir utan lögin fjögur sem þegar voru komin í úrslit.

Voru það þau Már og Ísold sem fengu síðasta sætið í úrslitum en þau fluttu lagið Don´t you know um síðustu helgi.

Fyrir viku síðan fóru lögin Ljósið, í flutningi Stefáns Óla, og lagið Með hækkandi sól, í flutningi systranna Siggu, Betu og Elínar áfram í úrslit.

Einnig var tilkynnt í kvöld að Tusse, keppandi Svía í Eurovision á síðasta ári, muni koma fram á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar um næstu helgi. Til stóð að að úkraínska Eurovisionhljómsveitin Go_A myndi koma fram á úrslitakvöldinu en ekkert verður af því vegna stríðsins í Úkraínu.

Í tilkynningu RÚV er vitnað í Rúnar Frey Gíslason, framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar, sem segir að mikil eftirsjá sé í úkraínska atriðinu og að RÚV hafi verið í góðu sambandi við sveitina síðustu vikur.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.