Sport

Baldvin á HM eftir glæsilegt Íslands- og skólamet

Sindri Sverrisson skrifar
Baldvin Þór Magnússon hefur bætt sig svakalega á síðustu misserum og heldur áfram á þeirri braut.
Baldvin Þór Magnússon hefur bætt sig svakalega á síðustu misserum og heldur áfram á þeirri braut. emueagles.com

Akureyringurinn Baldvin Þór Magnússon er kominn með sæti á HM í frjálsum íþróttum innanhúss sem fram fer í Belgrad í Serbíu eftir rúman mánuð.

Baldvin, sem er 22 ára gamall, tryggði sér HM-sæti með stórkostlegu 3.000 metra hlaupi í Boston um helgina, þar sem hann keppti á móti fyrir Eastern Michigan háskólann.

Baldvin hljóp á 7:47,51 mínútum og stórbætti þar með Íslandsmetið í greininni, sem hann tvíbætti á síðasta ári. Fyrra met hans var 7:53,72 mínútur.

„Hann hljóp sex sekúndum undir sínum besta tíma og setti nýtt skólamet. Það er ekki hægt að biðja um meira en þetta,“ sagði Mark Rinker, aðstoðarþjálfari Eastern Michigan frjálsíþróttaliðsins.

Baldvin, sem hafnaði í 5. sæti á mótinu í Boston, á einnig Íslandsmetið í 1.500 metra hlaupi utanhúss frá því í apríl í fyrra þegar hann sló 39 ára gamalt met Jóns Diðrikssonar.

Baldvin er greinilega til alls líklegur í ár en fyrir viku varð hann fyrstur Íslendinga til að hlaupa einnar mílu hlaup á innan við fjórum mínútum, eða 3:58,08 mínútum. Þar sem hlaupið fór fram á 300 metra braut telst það þó ekki sem Íslandsmet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×