Sport

Gerðum vel í að keyra upp hraðann í seinni hálfleik

Andri Már Eggertsson skrifar
Benedikt var nokkuð spakur á hliðarlínunni í kvöld
Benedikt var nokkuð spakur á hliðarlínunni í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík valtaði yfir Val í Origo-höllinni og tyllti sér á toppinn í leiðinni. Leikurinn endaði með nítján stiga sigri gestanna 69-88. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður eftir leik.

„Leikurinn vannst í seinni hálfleik, þá tókst okkur að ná tökum á leiknum. Valur stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik en vörnin small í seinni hálfleik.“

„Okkur tókst að keyra upp hraðann í seinni hálfleik. Leikurinn var mjög hægur í fyrri hálfleik sem hentar Val mjög vel en við gerðum þetta að okkar leik sem var stór partur af sigrinum,“ sagði Benedikt Guðmundsson ánægður eftir leik.

Njarðvík náði tuttugu stiga sveiflu sem setti gestina í bílstjórasætið og var Benedikt ánægður með hraðann í leiknum á því augnabliki.

„Þetta var frábær kafli. Við fundum ekki taktinn varnarlega til að byrja með en við fundum hann síðan og gerðum það sem við höfðum æft. Þegar vörnin small þá fengum við auðveld stig úr hraðaupphlaupum sem var mikilvægt því það er erfitt að eiga við Val á hálfum velli.“ 

Benedikt var ánægður með hvernig Njarðvík hélt haus í fjórða leikhluta og stóð af sér áhlaup Vals. 

„Valur náði einum sjö stiga kafla og ég þurfti að henda í leikhlé en að öðru leyti var seinni hálfleikur frábær,“ sagði Benedikt að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×