Umboðsmaðurinn Magnús Agnar Magnússon greinir frá þessu á Twitter í dag en í byrjun vikunnar bárust fregnir af því að Kristianstad vildi semja við þessa efnilegu knattspyrnukonu.
— Magnus Agnar Magnusson (@totalfl) January 12, 2022
Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad eins og mörg undanfarin ár en hún stýrði liðinu til sætis í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð, rétt eins og ári áður.
Í stjórnartíð Elísabetar hefur Kristianstad alltaf verið mikið Íslendingalið og á síðustu leiktíð léku þær Sveindís Jane Jónsdóttir og Sif Atladóttir með liðinu en þær eru nú horfnar á brott. Hin 18 ára gamla Amanda Andradóttir er hins vegar komin frá norska félaginu Vålerenga.
Emelía hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar spilað meistaraflokksleiki með Gróttu, í næstefstu deild. Hún á að baki fimm leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Emelía er fædd í mars 2006 en hún er dóttir Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara Breiðabliks og systir Orra Steins sem bankar á dyrnar hjá meistaraflokki FC Kaupmannahafnar í Danmörku.