Lífið

Vetrar­sól­stöðu­ganga Píeta fer fram í kvöld

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Gangan er fyrir alla sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi.
Gangan er fyrir alla sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi. Facebook/Píeta

Í kvöld fer fram árleg Vetrarsólstöðuganga Píeta samtakanna. Þetta er árviss viðburður þar sem syrgjendur leggja leið sína út að vitanum við Skarfagarð til að minnast ástvina sem féllu fyrir eigin hendi.

„Vetrarsólstöðugangan er innihaldsrík samverustund þar sem fólk kemur og fer á dimmasta kvöldi ársins, þriðjudaginn 21.12. frá klukkan 20. Gengið er í minningu þeirra sem látist hafa fyrir eigin hendi. Hist er hjá vitanum við Skarfaklett án talaðs máls eða handabanda,“ segir um viðburðinn. Vegna COVID verður engin samkoma heldur er fólki boðið að koma og fara án hópamyndunar.

Á staðnum má kaupa útikerti og tendra lifandi ljós. Eins má skrifa skilaboð á gulan vegginn sem standa munu undir grænu vitaljósinu yfir hátíðir og fram á nýár. 

„Uppljómaður vitinn og gangandi umferð syrgjenda tjáir mannlega samstöðu og veitir hvatningu öllum sem glíma við sjálfsvígshugsanir að gefast ekki upp heldur þiggja hjálp og velja lífið.“

Nánari upplýsingar má finna á Facebook. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Píeta samtökin gerðu fyrir viðburðinn, þar talar Hallgrímur Helgason og Guðrún Árný Karlsdóttir syngur.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Píeta samtökin. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×