Sport

Halldór Jóhann: Heppnin var með okkur í liði

Andri Már Eggertsson skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, var ánægður með sigur kvöldsins
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, var ánægður með sigur kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Selfoss vann eins marks sigur á Fram 28-27. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en Selfoss hafði betur að lokum. Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, var ánægður með sigur kvöldsins.

„Ég er mjög ánægður með leikinn, það voru margir hlutir sem duttu með okkur undir lokin. Þetta var ekki góður handboltaleikur þrátt fyrir að hafa verið spennandi,“ sagði Halldór Jóhann.

Selfoss byrjaði leikinn afar illa og komst á blað þegar átta mínútur voru liðnar af leiknum.

„Við vorum að gera erfiða hluti í byrjun. Við köstuðum boltanum frá okkur og áttum lélegar línusendingar. Eftir það náðum við 9-2 kafla sem setti okkur í þriggja marka forystu. Vörnin var góð á þessu tímapunkti sem skipti máli.“

Halldór Jóhann var svekktur með vörn og markvörslu Selfoss í seinni hálfleik.

„Í seinni hálfleik spiluðum við lélega vörn og fengum enga markvörslu.“

Halldóri fannst hans menn vera heppnari undir lok leiks sem skilaði sér í eins marks sigri.

„Við vorum heppnari. Ég hefði verið brjálaður sem þjálfari Fram hefði leikmaður í mínu liði ekki tekið frákastið undir lokin þegar Einar Sverrisson klikkaði á víti.“

„Þetta datt fyrir okkur í kvöld. Við höfum stundum verið óheppnir en í kvöld var lukkan með okkur í liði,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×