Magdalena Andersson er fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra Svíþjóðar. Hér er hún með nýrri ríkisstjórn sinni.EPA
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti ríkisstjórn sína í morgun, daginn eftir að sænska þingið samþykkti hana sem forsætisráðherra landsins.
Andersson þurfti að fá nýtt fólk inn í ríkisstjórnina eftir að Græningjar gengu úr ríkisstjórnarsamstarfinu í síðustu viku. Þá nýtti hún tækifærið og gerði hrókeringar innan ráðherraliðsins.
Alls eiga 23 ráðherrar sæti í ríkisstjórninni sem er minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins sem Vinstriflokkurinn, Græningjar og Miðflokkurinn verja vantrausti.
Lina Axelsson Kihlblom.Wikipedia
Meðal þeirra sem koma ný inn í ríkisstjórnina er Lina Axelsson Kihlblom sem verður ráðherra málefna æðri menntunar og þar með fyrsta trans manneskjan til að gegna ráðherraembætti í landinu.
Kihlblom vakti þjóðarathygli í sjónvarpsþáttunum Skólastjórunum (s. Rektorerna) þar sem meðal annars var sögð saga Kihlblom og hvernig tókst að bæta námsárangur barna í Ronnaskolan í Södertälje.
„Ég ætla að taka með mér þá sannfæringu að hvert einasta barn geti náð góðum árangri í skólanum,“ sagði Kihlblom þegar hún tók við ráðherraembættinu í morgun.
Andersson tilkynnti jafnframt að innanríkisráðherrann Mikael Damberg taki við embætti fjármálaráðherra – embætti sem Andersson hefur sjálf gegnt frá árinu 2014. Ann Linde verður áfram utanríkisráðherra.
Ný ríkisstjórn tók formlega við völdum eftir fund með Karli Gústaf Svíakonungi í hádeginu.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september á næsta ári.
Magdalena Andersson, formaður sænskra Jafnaðarmanna, var endurkjörin í dag í embætti forsætisráðherra en hún sagði af sér á dögunum eftir að hafa fyrst kvenna aðeins setið í embætti í sjö klukkustundir. Andersson sagði af sér í síðustu viku í kjölfar þess að Græningjar ákváðu að ganga úr ríkisstjórn.
Stefan Löfven greindi frá því um síðustu helgi hann ætli sér að láta af störfum sem forsætisráðherra Svíþjóðar í haust. Hann muni ekki bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í Jafnaðarmannaflokknum á landsþingi í nóvember. Skiljanlega eru farnar af stað miklar umræður um hver muni taka við formennsku í flokknum og yrði þá í kjörstöðu til að taka einnig við embætti forsætisráðherra landsins.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.