Innlent

Bókaþjófur herjar á ís­lenska rit­höfunda á ný

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ólafur Jóhann Ólafsson er meðal rithöfunda sem hafa fengið tölvupóst frá meintum bókaþjófi.
Ólafur Jóhann Ólafsson er meðal rithöfunda sem hafa fengið tölvupóst frá meintum bókaþjófi.

Rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson er meðal þeirra sem hafa fengið tölvupóst frá aðila sem girnist óútgefna bók hans. Að sögn útgefanda minna skilaboðin á bókaþjóf sem herjaði á rithöfunda úti um allan heim fyrir nokkrum árum. Kynningarstjóri Forlagsins segir að þjófurinn hefur komist yfir að minnsta kosti tvö óútgefin handrit íslenskra höfunda.

Ólafur Jóhann fékk sendan tölvupóst í dag frá ónefndum aðila sem þóttist vera Páll Valsson, útgáfustjóri Bjarts & Veraldar, þar sem hann óskaði eftir óútgefinni bók Ólafs Jóhanns sem PDF-skjal. Þjófurinn lét sér ekki nægja að senda einn tölvupóst heldur ítrekaði beiðnina eftir að engin svör fengust.

„Hann er gamall prófarkalesari hann Ólafur Jóhann að hann tók eftir því að netfangið passaði ekki, það var „Vallson“, og lét okkur vita undir hádegi af þessu,“ segir Páll Már Ólafsson, útgefandi Bjarts & Veraldar, í samtali við fréttastofu en mbl.is greindi frá.

Skilaboðin voru á íslensku en segir Páll að ef hann hefði lesið þau á hlaupum hefðu málfarsvillurnar ef til vill farið framhjá honum. Til dæmis stóð í tölvupóstinum „ég finn ekki það núna.“ Páll Már segir skeytin minna á skeyti sem Filippo Bernardini, bókaþjófur sem stal yfir þúsund handritum, sendi á hann sjálfan og þóttist vera Hallgrímur Helgason.

„Ég áttaði mig á því hvað klukkan sló,“ segir Páll.

Páll Már segist þó ekki átta sig á hvers vegna þjófar líkt og Bernardini girnist óútgefnar bækur, enginn fjárhagslegur ávinningur felist í því heldur sé einungis verið að eyðileggja fyrir þeim. 

Leita til lögreglu vegna stuldar

Hólmfríður Matthíasdóttir, útgefandi Forlagsins, staðfestir í skriflegu svari að rithöfundar útgáfunnar hafi einnig fengið skilaboð frá aðila sem reyni að komast yfir bækurnar þeirra. Hann hafi einnig hellt sér yfir suma með ýmsum svívirðingum. Hólmfríður hefur haft samband við lögregluna til að skrásetja áreiti sendandans.

„Þetta hefur verið að koma upp svona í haust. Þetta kemur svo sem upp á hverju ári og alltaf á þessum árstíma. Þetta er einhver einstaklingur sem hefur óbilandi áhuga á íslenskum bókmenntum og getur ekki beðið eftir jólaútgáfunni heldur verður að komast í handritið,“ segir Fanney Benjamínsdóttir, kynningarstjóri Forlagsins.

Viðkomandi hefur komist yfir tvö handrit Forlagsins núna í haust, annað þeirra verkið Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur. Fanney telur það afar furðulegt að þjófurinn hafi komist yfir verkið þar sem Nína hefur ekki gefið áður út bók og umrætt verk hafi ekkert verið auglýst. Svo virðist sem sökudólgurinn viti hvaða bækur Forlagið hyggst gefa út áður en þær eru auglýstar.

Það sem þjófurinn gerir núna, ólíkt áður, er að láta starfsfólk vita að hann hafi komist yfir handritin.

„Það fylgir alltaf brot úr handritinu með,“ segir Fanney.

Rithöfundar og starfsfólk Forlagsins hafa fengið send brot en tölvupóstar sökudólgsins eru svívirðilegir að sögn Fanneyjar. Hann sé afar dónalegur og skrifi meiðandi orð.

Vara útgefendur við

Félag íslenskra bókaútgefanda hefur sent öllum útgefendum tölvupóst þar sem varað er við slíkum þjófum. Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir að stærri útgefendur líkt og Bjartur & Veröld hafi fengið tölvupósta þar sem reynt er að komast yfir óútgefin handrit.

Bryndís segir mikið álag núna þar sem margir séu að senda bækurnar sínar í prent og því séu PDF-skjöl „á ferð og flugi.“ Hún hafi því sent viðvörun á útgefendur til að allir gætu verið á varðbergi.

Pétur Már tekur undir að bæði rithöfundar og útgefendur þurfi að hafa varann á.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×