Innlent

Konan sem fór í keisaraskurð vegna Covid-19 óbólusett

Snorri Másson skrifar
Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. Vísir/Einar

Covid-smituð kona sem undirgekkst keisaraskurð í mánuðinum hafði ekki fengið bólusetningu samkvæmt upplýsingum fréttastofu. 

Sagt var frá því í gær að barn hafi verið tekið með keisaraskurði á Landspítala í mánuðinum vegna Covid-veikinda móðurinnar. 

Móðirin hafði ekki klárað fulla meðgöngu, heldur þurftu læknar að grípa til þessa ráðs svo að hún gæti lagst á grúfu til að ná betri öndun. Öðruvísi var það ekki hægt enda konan gengin svo langt á leið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er konan pólsk og hafði ekki fengið bólusetningu við Covid-19. Landlæknir mælir með bólusetningu barnshafandi kvenna eftir að fyrstu 12 vikum meðgöngu er lokið.

Í ágúst voru tólf prósent sextán ára og eldri óbólusett á Íslandi. Meirihluti, eða 60,4 prósent, var með erlent ríkisfang. Þegar litið er á íbúa með erlent ríkisfang í heild voru 48 prósent þeirra óbólusett í ágúst.

Ísland er í 18. sæti á heimsvísu í bólusetningarhlutfalli með tæplega 80% fullbólusettra. Óbólusettir eru þó í meirihluta af inniliggjandi sjúklingum á Landspítala 13 af 22, tæp 60%.

Agnieszka Sokolowska, þjónustufulltrúi hjá Reykjavíkurborg, fædd í Póllandi en búsett hér á landi í fjórtán ár, ræddi þennan vanda við fréttastofu í liðinni viku. Hún kvaðst hafa tekið eftir ótta við bólusetningar meðal samlanda sinna, þó að hún gæti að sjálfsögðu ekki talað fyrir hönd allra. Hreyfing bólusetningarandstæðinga væri mjög sterk í Póllandi.

„Og þetta hefur áhrif. Pólverjar hér á Íslandi eru oft að fylgjast með fréttunum frá heimalandi sínu, ekki sérstaklega íslenskum fréttum. Og það er bara áhyggjur um óöryggi bóluefnisins eða aukaverkanir,“ sagði Agnieszka og bætti við að upplifun sumra í fyrstu bylgju hafi verið á þá leið að Íslendingar ættu frekar tilkall til bóluefnis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.