Tottenham kom til baka og vann sinn fyrsta sigur undir stjórn Conte

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sáttur.
Sáttur. vísir/Getty

Antonio Conte náði í sinn fyrsta sigur sem knattspyrnustjóri Tottenham þegar lið hans lagði Leeds að velli í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Það blés þó ekki byrlega fyrir Tottenham því í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Daniel James fyrir gestina og tryggði þeim forystu í leikhléið.

Tottenham liðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik og það skilaði marki á 58.mínútu þegar Pierre Emil Hojbjerg kom boltanum í netið eftir sendingu Lucas Moura.

Sigurmarkið kom svo úr óvæntri átt þar sem Sergio Reguilon var fyrstur að átta sig eftir misheppnaða aukaspyrnu Eric Dier og kom spænski bakvörðurinn boltanum í netið.

Reyndist það sigurmark leiksins þar sem Tottenham vann 2-1 sigur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.