Innlent

Segjast hafa reynt að ná sáttum en án árangurs

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Málið verður dómtekið fyrir héraðsdómi eftir tvær vikur.
Málið verður dómtekið fyrir héraðsdómi eftir tvær vikur.

Lögmaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja segir að samtökin hafi reynt að ná sáttum við starfsmann sem lagði fram kvörtun á hendur yfirmönnum sínum vegna eineltis - en án árangurs. Félagið telji sig hafa gert upp við starfsmanninn með sanngirni og réttum hætti. Starfsmaðurinn krefst þess að félagið greiði honum sjötíu og fimm milljónir króna.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að starfsmaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, SSF, hafi lagt fram kvörtun vegna eineltis yfirmanna sinna. Maðurinn lýsti ítrekuðum svívirðingum á hendur sér og sagði yfirmenn sína hafa sýnt af sér ógnandi tilburði og lýsti því hvernig hann hafi stundum nánast lamast af hræðslu.

Maðurinn hefur stefnt SSF þar sem hann krefst þess að félagið greiði sér 75 milljónir króna; tæplega 56 milljónir fyrir ógreitt orlof, ógreidda yfirvinnu og kostnað vegna lögmannskostnaðar, ellefu milljónir í skaðabætur og átta milljónir í miskabætur. Lögmaður mannsins sagði í samtali við fréttastofu að eineltið hafi um tíma breyst í ofbeldi og að nú sé maðurinn óvinnufær og sé með vottorð bæði frá lækni og sálfræðingi þess efnis.

SSF vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, en Oddur Ástráðsson, lögmaður félagsins, segir í samtali við fréttastofu að reynt hafi verið að ná sáttum við starfsmanninn. Það hafi hins vegar ekki borið árangur. Þá telji félagið sig hafa gert upp við hann, bæði með sanngirni og réttum hætti, en að öðru leyti verði að leysa málið fyrir dómstólum. Höskuldur Þórhallsson, lögmaður mannsins, segir málið svipa til Eflingarmálsins.

„Þetta mál er að vissu leyti líkt Eflingarmálinu þar sem það eru starfsmenn sem kvarta yfir slæmum vinnuaðstæðum og leita úrlausna á því og fara í rauninni réttar boðleiðir, munurinn hins vegar er sá að í því tilfelli þá axlaði formaðurinn ábyrgð og sagði af sér en í tilviki umbjóðanda míns var honum sagt upp störfum í miðju veikindaleyfi,“ segir Höskuldur.

Aðalmeðferð í málinu fer fram eftir tvær vikur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.