Sport

Var svo illa farinn eftir bardaga að síminn þekkti hann ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má stórsá á Rico Verhoeven eftir bardagann gegn Jamal Ben Saddik.
Eins og sjá má stórsá á Rico Verhoeven eftir bardagann gegn Jamal Ben Saddik. getty/Broer van den Boom

Hollenski sparkboxarinn Rico Verhoeven var svo illa farinn í andliti eftir bardaga að síminn hans þekkti hann ekki.

Verhoeven er einn fremsti sparkboxari heims og um helgina varði hann titil sinn í þungavigt eftir sigur á Jamal Ben Saddik.

Verhoeven þurfti að hafa mikið fyrir hlutunum og í annarri lotu íhugaði dómarinn að stöðva bardagann. Ben Saddik sló Verhoeven þá niður og Hollendingurinn fékk skurð undir vinstra augað. Eftir að sárinu hafði verið lokað fékk Verhoeven að halda áfram og í fjórðu lotu rotaði hann Ben Saddik.

Þrátt fyrir sigurinn stórsá á Verhoeven eftir bardagann. Augað var stokkbólgið og hann sá varla út úr því. Sauma þurfti sex spor í andlit Verhoevens.

Í viðtali við MMA Fighting sagðist Verhoeven hafa verið spurður að því hvort hann gæti opnað símann sinn með andlitsauðkenni á blaðamannafundi eftir bardagann.

„Ég sagðist ekki vita það en ég gæti prófað. Það gekk ekki. En núna virkar þetta,“ sagði Verhoeven léttur.

Hann hefur unnið fimmtán bardaga í röð og er taplaus síðan 2015. Alls hefur Verhoeven unnið 59 af 69 bardögum sínum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.