Sport

Þýski handboltinn: Bjarki Már skoraði ellefu mörk í sigri Lemgo

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Bjarki Már Elísson er aðalmarkaskorari Lemgo.
Bjarki Már Elísson er aðalmarkaskorari Lemgo. Getty/Marius Becker

Bjarki Már Elísson var heldur betur með miðið rétt stillt þegar að Lemgo mætti í heimsókn til Minden í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Skoraði ellefu mörk í þriggja marka sigri.

Lemgo vann Minden á útivelli, 29-32. Einungis 31 kílómetri er á milli borganna svo það mætti kalla þetta nágrannaslag. Minden höfðu tögl og haldir mestallan leikinn en einhvernvegin misstu svo einbeitinguna og Lemgo gekk á lagið. Minden hafði mest átta marka forskot. Frábær endurkoma hjá Lemgo sem fór með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar. Minden er hins vegar á botninum.

Rhein Neckar-Löwen vann nauman eins marks sigur á Wetzlar. Löwen leiddi með tveimur mörkum í hálfleik og vann að lokum, 29-30. Ýmir Már Gíslason komst ekki á blað en Andy Schmid var markahæstur hjá Löwen með sex mörk. Hjá Wetzlar var Lenny Rubin atkvæðamestur með sex mörk.

Flensburg vann einnig eins marks sigur, en liðið vann Stuttgart 30-29. Eftir jafnan fyrri hálfleik náðu Flensburg smávægilegu forskoti sem hélst út leikinn. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg en markahæstur þeirra var Hampus Wanne sem skoraði níu mörk. Hjá Stuttgart var Patrik Zieker markahæstur með níu mörk.

Fuchse Berlin vann auðveldan sigur á Lubbecke, 30-22. Hans Lindberg var markahæstur heimamanna með átta mörk en hjá Lubbecke var Yannick Drager með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×