Menning

Goð­sögn úr heimi óperu­tón­listar er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Edita Gruberová, Slóvakíski næturgalinn, varð 74 ára.
Edita Gruberová, Slóvakíski næturgalinn, varð 74 ára. EPA

Óperusöngkonan heimsþekkta, Edita Gruberová, er látin, 74 ára að aldri. Umboðsmaður Gruberová staðfestir í samtali við AFP að hún hafi látist í Zürich í Sviss í gær.

Kólóratúr-sópransöngkonan fæddist í Bratislava í þáverandi Tékkóslóvakíu árið 1946. 

Hún þreytti frumraun sína í Rakaranum frá Sevilla árið 1968 en hún sló svo í gegn tveimur árum síðar í Þjóðaróperunni í Vínarborg sem Næturdrottningin í uppsetningu af Töfraflautunni. Hún átti margoft eftir að fara með hlutverkið á ferli sínum.

Á um fimmtíu ára söngferli kom hún fram í mörgum af stærstu óperuhúsum heims og starfaði með tónlistarstjórum á borð við Wolfgang Sawallisch og Herbert von Karajan.

Slóvakíski næturgalinn, eins og hún var stundum kölluð, var þekkt fyrir að beita svokallaðri bel canto-tækni í söng sínum, en tæknin hefur sérstaklega verið bendluð við verk eftir tónskáld á borð við Rossini, Donizetti og Bellini.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×