Líkt og fjallað var ítarlega um á Vísi komu vélarnar hingað til lands í ágúst og voru þær við æfingar hér við land í nokkrar vikur.
Í myndbandi sem 131. sprengjusveit þjóðvarðliðs Missouri hefur birt á Facebook er viðtal við undirofurstann Matthew Howard þar sem hann fer yfir verkefnið hér á landi.
„Til að segja sannleikann þá hafði ég áhyggjur framan af. Besta veðrið er ekki á Íslandi. Það er ellefu stiga hiti, stundum er fimmtán metrar á sekúndu og það rignir nánast hvern einasta dag. Þoturnar voru utandyra allan tímann þannig að við höfðum áhyggjur af því að hafa þær úti í þessu veðri án þess að vera með flugskýli,“ segir Howard í myndbandinu.
Markmiðið með komu vélanna til Íslands þetta skiptið var að æfa samhæfingu við hersveitir frá Noregi og Bretlandi, en meðal annars var verið að æfa eldsneytisáfyllingu á lofti.
„Við höfum þurft að berjast við veðrið og það hefur látið okkur vinnna fyrir kaupinu, segir Howard,“ sem þakkar flugvirkjum og öðru starfsliði fyrir það hversu vel gekk að halda þotunum í góðu standi þrátt fyrir skort á flugskýli.
B-2 er talin eitthvert skæðasta vopn sem til er en óvenjulegt útlit þotunnar gerir það að verkum að hún sést illa á ratsjám. Þá getur hún borið allt að sextán kjarnorkusprengjur.
Þessi fljúgandi vængur er jafnframt dýrasta flugvél sögunnar. Þróun og smíði hennar kostaði 260 milljarða króna á hvert eintak en aðeins tuttugu eru til í heiminum. Svo dýr er hún í rekstri að hver flugtími reiknast á 17 milljónir króna.