Bíó og sjónvarp

Sýnishorn úr barna- og fjölskyldumyndinni Birta

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Kvikmyndin Birta verður frumsýnd 5. nóvember.
Kvikmyndin Birta verður frumsýnd 5. nóvember. Skjáskot

Kvikmyndin Birta eftir Braga Þór Hinriksson er fyrsta leikna barna-og fjölskyldumyndin sem verður frumsýnd hér á landi frá því Víti í Vestmannaeyjum var sýnd árið 2018 við miklar vinsældir, einnig í leikstjórn Braga Þórs.

„Birta er bráðfyndin og hjartfólgin saga um íslenskan raunveruleika sem margir þekkja og tengja við,“ segir í tilkynningu um myndina. 

Sagan gerist í neðra Breiðholti og fjallar um Birtu Bjarkadóttur 11 ára, sem heyrir fyrir slysni, einstæða móður sína sem vinnur myrkrana á milli sem hjúkrunarfræðingur til að ná endum saman segja við vinkonu í símann að hún hafi ekki efni á að halda jól. Hún þurfi að minnsta kosti hundrað þúsund krónur til að geta haldið mannsæmandi jólahátíð fyrir stelpurnar sínar. 

Birta tekur þessum fréttum bókstaflega og ákveður að reyna bjarga jólunum fyrir mömmu og litlu systur sína Kötu sem er sex ára. Birta reynir margar leiðir til að hjálpa mömmu sinni án hennar vitneskju að afla fjár en kemst fljótt að því að það er alls ekkert einfalt mál að vinna sér inn pening, hvað þá þegar maður er ellefu ára.

Með aðahlutverk í myndinni fara Kristín Erla Pétursdóttir í hlutverki Birtu, Salka Sól Eyfeld í hlutverki móður Birtu og Margrét Júlía Reynisdóttir í hlutverki systur Birtu.Aðsent

Saga og handrit myndarinnar er eftir Helgu Arnardóttur og var hún framleidd af fyrirtækinu H.M.S. Productions í samstarfi við Símann, Senu og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Með aðahlutverk fara Kristín Erla Pétursdóttir í hlutverki Birtu, Salka Sól Eyfeld í hlutverki móður Birtu og Margrét Júlía Reynisdóttir í hlutverki systur Birtu. Auk þess fara stórleikarar með önnur aukahlutverk í myndinni á borð við Margréti Ákadóttur, Harald G. Haralds, hr. Hnetusmjör Helgu Brögu Jónsdóttur, Karl Ágúst Úlfsson, Bjarna Snæbjörnsson, Elmu Lísu Gunnarsdóttir, Álfrúnu Örnólfsdóttur, Kristin Óla Haraldsson eða Króla, Hannes Óla Ágústsson, Sigurð Karlsson og fleiri.

Þótt Birta hafi ekki enn verið frumsýnd á Íslandi hefur hún notið mikillar velgengni nú þegar og var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Giffoni við góðar viðtökur á Ítalíu í júlí síðastliðinn. Myndin hefur verið valin inn á þrettán kvikmyndahátíðir, sem margar hverjar eru þær virtustu. Birta hefur einnig verið seld til STUDIO HAMBURG til dreifingar og sölu um allan heim.

 Sýningar hefjast í kvikmyndahúsum Senu þann 5. nóvember og verður lokamynd Barnamyndakvikmyndahátíðarinnar í Bíó Paradís í byrjun nóvember. Stutt sýnishorn úr myndinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sýnishorn úr kvikmyndinni BirtaFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.