Fótbolti

Mæta til leiks í úrslit Þjóðadeildarinnar ósigraðir í 37 leikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini mætir til Ítalíu með Evrópumeistarabikarinn sem ítalska landsliðið vann á Wembley í sumar. Ítalar geta núna unnið annan bikar í þessari viku þegar spilað er til úrslita í Þjóðadeildinni.
Roberto Mancini mætir til Ítalíu með Evrópumeistarabikarinn sem ítalska landsliðið vann á Wembley í sumar. Ítalar geta núna unnið annan bikar í þessari viku þegar spilað er til úrslita í Þjóðadeildinni. EPA-EFE/TELENEWS

Ítalir gætu unnið sinn annan titil á þessu ári þegar úrslitaleikir Þjóðadeildarinnar fara fram í vikunni. Ítalska liðið er á heimavelli og hefur ekki tapað leik í þrjú ár.

Ítalir tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í sumar eftir 3-2 sigur á Englendingum í vítakeppni í úrslitaleik EM á Wembley.

Í kvöld mæta þeir Spánverjum á San Siro í Mílanó í fyrri undanúrslitaleik Þjóðadeildarinnar en sigurvegarinn mætir annaðhvort Belgíu og Frakklandi í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Hinn undanúrslitaleikurinn fer fram á morgun. Allir leikirnir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Portúgalar urðu fyrstir til að vinna Þjóðadeildartitilinn þegar keppt var um hann í fyrsta sinn sumarið 2019. Þeir komust aftur á móti ekki í úrslitakeppnina nú.

Ítalska landsliðið tapaði ekki leik á EM og hefur alls leikið 37 leiki í röð án þess að tapa. Síðasti tapleikurinn kom á móti Portúgal í september 2018.

Ítalir og Spánverjar mættust líka í undanúrslitum á EM í sumar og þar vann ítalska liðið í vítakeppni.

„Spánn var það lið sem við áttum í mestum erfiðleikum með á EM í sumar. Það yrði stórkostlegt ef við gætum fylgt eftir sigra á Evrópumótinu með því að vinna Þjóðadeildina og tryggja okkur síðan inn á HM snemma. Það verður ekki auðvelt því allir leikir koma með sína erfiðleika,“ sagði Roberto Mancini, þjálfari ítalska landsliðsins en hann hefur gert ótrúlega hluti með þetta lið.

„Það var þegar mjög spennandi verkefni fyrir okkur fyrir EM að mæta Ítalíu á Ítalíu í undanúrslitum,“ sagði Luis Enrique, þjálfari Spánverja, en svo bættist við sárgrætilegt tap í vítakeppni á móti Ítölum á EM í sumar.

„Ég myndi elska það að vinna þessa keppni. Þetta verður mjög áhugaverður leikur. Að sjá hvernig frammistöðu við getum boðið upp á fyrir framan meirihluta ítalska stuðningsmanna og á móti ríkjandi Evrópumeisturum,“ sagði Enrique.

Leikur Ítalíu og Spánar hefst klukkan 18.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.