Innlent

Ýmislegt hafi gerst dagana fyrir kosningar sem gæti útskýrt mun á könnunum og kosningum

Birgir Olgeirsson skrifar
Framkvæmdastjóri Maskínu segir að það sé eðlilegt að munur sé á könnunum og kosningum. Ýmislegt gerðist dagana fyrir kjördag sem gæti útskýrt muninn. 
Framkvæmdastjóri Maskínu segir að það sé eðlilegt að munur sé á könnunum og kosningum. Ýmislegt gerðist dagana fyrir kjördag sem gæti útskýrt muninn.  Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Maskínu segir kannanir ekki hafa gefið ranga mynd af stöðu stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar, líkt og formenn flokka vildu meina daginn eftir kjördag.

„Ég held að greiningarfyrirtækin þurfi að fara að greina sig svolítið sjálf,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í léttum dúr í Sprengisandi á sunnudag, daginn eftir kjördag. 

Heyra mátti á leiðtogum flokkanna í Sprengisandi að þeir væru hugsi yfir því að það sem kom upp úr kössunum væri ekki alveg í takt við þær fylgiskannanir sem birtustu dagana fyrir kosningar. Framkvæmdastjóri Maskínu, eitt þeirra fyrirtækja sem framkvæmir slíkar kannanir, segir muninn eðlilegan.

„Það var náttúrlega alls ekki langt á milli. Það var í mörgum tilfellum innan við eitt prósentustig sem munar á niðurstöðum kannanna og kosninga og upp í þrjú prósentustig. Fólk verður að hafa í huga að það er ýmislegt sem getur gerst nokkrum dögum fyrir kosningar,“ segir Þóra Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Maskínu. 

Kannanir sem birtar eru daginn fyrir kjördag eru unnan nokkrum dögum áður. Í milli tíðinni geti ýmislegt gerst, sem gæti til dæmis útskýrt muninn á fylgi Viðreisnar og Sósíalista í könnunum og kosningunum. Þóra nefnir þar orð Seðlabankastjóra sem beindust að stefnu Viðreisnar um að binda gengi krónunnar við Evru og birtust daginn fyrir kjördag.

„Svo kannski líka, Sósíalistaflokkurinn talaði kannski með aðeins öðrum hætti síðustu dögunum fyrir kosningar sem gæti hafa haft það í för með sér að eitthvað af fylgi þeirra fór yfir á Flokk fólksins.“

Fólk eigi það einfaldlega til að skipta um skoðun í kjörklefanum að mati Þóru.

„Það hefur komið í ljós í kosningarannsóknum að það eru fleiri og fleiri sem taka ákvörðun í kjörklefanum þannig að það er alveg eðlilegt að það sé einhver munur á kosningum og könnunum, nokkrum dögum fyrir kosningar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×