Martinez skoraði er Inter tapaði stigum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Lautaro Martinez skoraði í dag
Lautaro Martinez skoraði í dag EPA-EFE/SIMONE ARVEDA

Sampdoria og Ítalíumeistarar Inter frá Milanó skildu jöfn, 2-2, í þriðju umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, Serie A.

Það voru gestirnir frá Inter sem að skoruðu fyrsta mark leiksins á 18. mínútu og var þar á ferðinni Frederico Dimarco sem skoraði stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Dimarco smellti honum rakleiðis upp í samskeytin markmannsmegin.

Maya Yoshida jafnaði leikinn korteri seinna með skoti úr teignum.

Inter komust aftur yfir með marki frá Lautaro Martinez á 44. mínútu. Martinez skoraði þá með viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf frá Nicolo Barella. 

Sampdoria náði að jafna leikinn á nýjan leik. Var það Tommaso Augello sem gerði það með virkilega fínni afgreiðslu á 47. mínútu og þar við sat, niðurstaðan 2-2.

Inter er með sjö stig eftir þrjá leiki og Sampdoria er með tvö.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.