Enski boltinn

„Ef þeir vinna ekki á móti Norwich, þá er þetta líklega búið fyrir Arteta“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Joe Cole Segir að starf Arteta hangi á bláþræði.
Joe Cole Segir að starf Arteta hangi á bláþræði. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Joe Cole, fyrrum leikmaður Chelsea og Liverpool, og nú sérfræðingur hjá BT Sport, segir að Mikel Arteta verði að öllum líkindum látinn taka poka sinn ef Arsenal mistekst að vinna Norwich í ensku úrvalsdeildinni næstu helgi.

Arsenal hefur farið vægast sagt illa af stað í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Félagið er enn án stiga eftir þrjár umferðir og liðið hefur ekki skorað eitt einasta mark í þessum þrem leikjum.

Liðið eyddi háum fjáhæðum á leikmannamarkaðnum í sumar, og raunar var ekkert lið sem eyddi meira en Arsenal.

Joe Cole, fyrrum leikmaður Chelsea, segir að allt annað en sigur næstu helgi gegn Norwich þýði það að Arteta verði látinn fara.

„Framtíð Arsenal er í lausu lofti,“ sagði Cole. „Ég veit að þeir eru búnir að spila á móti Chelsea og Manchester City, tveim bestu liðum deildarinnar, en það er hvernig þeir tapa þessum leikjum.“

„Þeir höfðu allt undirbúningstímabilið til að undirbúa sig fyrir leikinn á móti Brentford, en það gekk ekki af því að þeir voru ekki tilbúnir andlega.“

„Í þessum tveim töpum á móti stóru strákunum var eins og þeir hafi bara lagst niður og dáið.“

Cole hrósaði þó Arteta og sagði þetta ekki vera hans sök, heldur væri þetta eitthvað sem væri búið að vera lengi í gangi hjá félaginu.

„Þetta hefur gerst allt of oft hjá Arsenal. Það er ekki Arteta að kenna. Mér líkar hvernig hann hefur tæklað stöðuna og hann er að þroskast sem þjálfari. Hann kemur augljóslega úr góðum skóla eftir að hafa unnið með Pep Guardiola.“

„En hann þarf að ná í úrslit á móti Norwich. Ef þeir vinna ekki á móti Norwich, þá er þetta líklega búið fyrir Arteta.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.