Sport

„Hann verður alltaf númer eitt“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gian van Veen lítur mikið upp til Michael van Gerwen.
Gian van Veen lítur mikið upp til Michael van Gerwen.

Gian van Veen hefur spilað stórkostlega á HM í pílukasti og er kominn upp fyrir samlanda sinn, Michael van Gerwen, á heimslistanum.

Gian van Veen vann öruggan 5-1 sigur gegn Luke Humphries í gær og mætir Gary Anderson í undanúrslitunum í kvöld. Hann byrjaði HM í tíunda sæti heimslistans en er kominn upp í þriðja sætið.

Með sigrinum í gær stökk Hollendingurinn upp fyrir gangandi goðsögnina van Gerwen.

„Mér finnst sturlað að segja það upphátt, þriðja sætið á heimslistanum“ sagði van Veen og fór fögrum orðum um van Gerwen.

„Ég veit hvað Michael hefur afrekað síðustu þrettán ár og fyrir mér verður hann alltaf númer eitt í Hollandi. Sama hvað listarnir segja. Á blaði er ég kannski kominn fram úr Michael en fyrir mér á ég langt í land, ég veit að ég er góður en ég er ekki í sama klassa og Michael. Hann hefur unnið 158 mót, ég hef unnið tvö. Svo lengi sem hann spilar verður hann besti Hollendingurinn“ sagði van Veen hógvær.

Michael van Gerwen hefur átt erfitt ár, bæði í pílukastinu og persónulega lífinu. Hann byrjaði árið 2025 á því að tapa úrslitaleik HM gegn Luke Littler og tókst síðan ekki að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni, á sama tíma og hann gekk í gegnum erfiðan skilnað eftir framhjáhald æskuástarinnar. Hann datt síðan út í sextán manna úrslitum á HM skömmu fyrir áramót.

„Við vitum öll hvað hann hefur gengið í gegnum á árinu, en að vera enn í fjórða sæti heimslistans segir mikið um hans gæði. Þegar hann er upp á sitt besta vinnur hann hvern sem er“ sagði van Veen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×