Þeir Raheem Sterling og Jude Bellingham urðu báðir fyrir aðkasti vegna hörundlitar síns þegar England vann 4-0 útisigur á Ungverjum á Puskás-vellinum í Búdapest í gærkvöldi. Hlutum var grýtt í leikmenn, þar sem Sterling fékk meðal annars bjórglas í sig þegar hann fagnaði marki sínu í leiknum.
Ungverjar eiga að vera í þriggja leikja áhorfendabanni, sem Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, dæmdi liðið í vegna hatursfullrar framkomu ungverska stuðningsmanna í garð samkynhneigðra á leikjum á EM í fótbolta í Ungverjalandi í sumar.
Leikurinn við England var hluti af undankeppni HM, sem er á vegum FIFA, og var bannið því ekki í gildi.
Németh er Ungverji en þjálfaði landslið Englands í körfubolta um ellefu ára skeið, frá 1994 til 2004. Hann tók á samfélagsmiðilinn Facebook til að láta óánægju sína í ljós.
„Mér býður við hópi stuðningsmanna á leik Ungverjalands og Englands í undankeppni HM sem beitti leikmenn Englands kynþáttaníði. Það er ekki erfitt að bera kennsl á þessa menn. Þeim ætti að vera bannað að mæta á alþjóðlega íþróttaviðburði fyrir lífstíð án reynslulausnar.“ sagði Németh í stöðuuppfærslu sinni á Facebook.
Németh þekkir til á Íslandi en hann var landsliðsþjálfari Íslands samhliða því að stýra liði KR frá 1988 til 1990. Hann var valinn þjálfari ársins á Íslandi 1989 og 1990 en hann stýrði KR til Íslandsmeistaratitils síðara árið, sem var þá fyrsti titill KR-inga í ellefu ár.
Þá vann Ísland EM smáþjóða undir hans stjórn árið 1988 og hlaut brons á Smáþjóðaleikunum ári síðar.
Hann stýrði KR aftur 1993 til 1994 en varð svo landsliðsþjálfari Englands frá 1994 til 2004. Hann lagði þjálfaraflautuna á hilluna 2006 eftir tvö ár hjá Al-Ittihad í Sádi-Arabíu. Hann þjálfaði einnig í heimalandinu, í Kúveit og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á sínum ferli.
