AP fréttaveitan segir að undir lok júnímánaðar hafi sjö daga meðaltal smitaðra í Bandaríkjunum verið um ellefu þúsund á dag. Nú sé það 107.143.
Það tók Bandaríkin níu mánuði frá því faraldurinn hófst þar í landi að fara í hundrað þúsund smitaða á dag. Að þessu sinni tók það einungis sex vikur og það jafnvel þó rúmlega 70 prósent fullorðinna Bandaríkjamanna séu fullbólusettir.
Sjö daga meðaltal þeirra sem deyja á dag hefur einnig aukist úr 270 fyrir tveimur vikum í tæplega fimm hundruð í gær. Dauðsföll eru mun færri en þau voru síðast þegar um hundrað þúsund greindust smitaðir á dag og er það rakið til bólusetninga.
Innlögnum á sjúkrahús hefur fjölgað verulega og samkvæmt AP er skortur á sjúkrarými víða. Í Houston í Texas hefur þurft að flytja sjúklinga úr borginni og þar á meðal er einn sjúklingur sem var fluttur alla leið til Norður-Dakóta.

Hvergi fleiri á sjúkrahúsi en í Flórída
Ástandið hefur versnað hratt í Flórída og eru innlagnir hvergi fleiri í Bandaríkjunum. Þar hefur Ron DeSantis, ríkisstjóri, neitað að grípa til hertra sóttvarnaraðgerða. Í gær samþykkti hann ný lög sem ætlað er að stöðva skólayfirvöld í ríkinu í því að koma á grímuskyldum í skólum.
DeSantis brást reiður við spurningu blaðamanns í vikunni um grímur og börn og sakaði Joe Biden, forseta, um að bera ábyrgð á fjölgun smitaðra með dylgjum um að ólöglegir innflytjendur frá Suður-Ameríku séu að bera smit inn fyrir landamæri Bandaríkjanna.
Auk DeSantis hefur Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, einnig haldið þessu fram. Sérfræðingar segja þá, og aðra íhaldsmenn, hafa rangt fyrir sér. Um sextán prósent þeirra sem komi yfir landamærin greinist með Covid-19 en þeir séu ekki að valda dreifingu veirunnar í Bandaríkjunum.