Sport

„Afi, við náðum þessu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður varla ameríska en þetta. Ryan Crouser fagnar Ólympíugulli í kúluvarpi.
Það verður varla ameríska en þetta. Ryan Crouser fagnar Ólympíugulli í kúluvarpi. AP/Matthias Hangst

Bandaríkjamaðurinn Ryan Crouser tryggði sér Ólympíugull í kúluvarpi karla með því að setja nýtta Ólympíumet. Hann fagnaði gullinu sínu líka með sérstökum hætti.

Hinn 28 ára gamli Crouser var að vinna sitt annað Ólympíugull því hann varði Ólympíutitil sinn í kúluvarpi frá því 2016.

Crouser kastaði kúlunni 23,30 metra og bætti með því sitt eigið Ólympíumet frá því í Ríó fyrir fimm árum þegar hann kastaði lengst 22,52 metra.

Sigurinn var öruggur því Crouser átti fimm lengstu köstin og enginn náði sem dæmi að kasta lengra en 22,83 metra sem var hans fyrsta kast.

Verðlaunapallurinn breyttist ekki neitt milli Ólympíuleika því Bandaríkjamaðurinn Joe Kovacs fékk silfrið með kasti upp á 22,65 metra og Nýsjálendingurinn Tom Walsh tók bronsið með 22,47 metra kasti.

Þetta er búið að vera gott sumar fyrir Crouser sem sló 31 árs gamalt heimsmet í júní síðastliðnum þegar hann kastaði 23,37 metra og hann var ekki langt frá því meti í nótt.

Crouser tileinkaði afa sínum gullið en hann missti hann nýverið. Eftir keppnina tók hann upp blað sem á voru hjartnæm skilaboð: „Afi, við náðum þessu. Ólympíumeistari 2020.“

Hann fékk ekki aðeins stuðning að handan því heima í Redmond í Oregon safnaðist hans fólk saman, klæddi sig allt í Crouser treyjur og fögnuðu gríðarlega þegar gullið var í höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×