Sport

Fluttur af vellinum í hjólastól eftir að hafa meiðst illa í langstökki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas van der Plaetsen meiddist illa í langstökki í tugþrautakeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Thomas van der Plaetsen meiddist illa í langstökki í tugþrautakeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó. getty/David Ramos

Belgíski tugþrautakappinn Thomas Van der Plaetsen var fluttur burt af frjálsíþróttavellinum í Tókýó eftir að hafa orðið fyrir slæmum meiðslum.

Van der Plaetsen meiddist í annarri greininni, langstökki. Í fyrstu tilraun sinni virtist hann togna aftan í læri. Hann sneri aftur og tók tilhlaup en sneri upp á hnéð á sér, datt og lenti á hliðinni í sandinum.

Belginn var greinilega sárþjáður og í áfalli og sjúkraliðar fluttu hann burt af vellinum í hjólastól.

Van der Plaetsen er á sínum öðrum Ólympíuleikum en hann lenti í 8. sæti í tugþrautakeppninni í Ríó 2016.

Van der Plaetsen greindist með krabbamein í eista í október 2014 en náði fullum bata og keppti á heimsmeistaramótinu árið eftir. Hann varð Evrópumeistari í tugþraut 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×