Sport

Nú kom loksins gullið hjá De Grasse

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre De Grasse fagnar sigri sínum í 200 metra hlaupinu í dag.
Andre De Grasse fagnar sigri sínum í 200 metra hlaupinu í dag. AP/Francisco Seco

Kanadamaðurinn Andre De Grasse vann sín fyrstu gullverðlaun á stórmótum í dag þegar hann vann 200 metra hlaup karla á Ólympíuleikunum í Tókyó.

De Grasse kom í mark á 19,62 sekúndum sem er nýtt kanadískt met og gerir hann að áttunda fljótasta 200 metra hlaupara sögunnar.

Bandaríkjamaðurinn Kenneth Bednarek fékk silfur og landi hans Noah Lyles tók bronsið. Fjórði var síðan þriðji Bandaríkjamanninum í hlaupinu sem var Erriyon Knighton.

Noah Lyles var í forystu framan af en e Grasse og Bednarek keyrðu báðir fram úr honum í lokin.

De Grasse vann silfur í þessari grein í Río og hafði unnið átta verðlaun á stórmótum á ferlinum en ekkert af þeim var gull. Hann tók líka bronsverðlaunin í 100 metra hlaupinu á þessum leikum.

Pólverjinn Wojciech Nowicki vann sannfærandi sigur í sleggjukasti karla en hann átti þrjú lengstu kostinn í úrslitunum. Lengsta kastið var upp á 82,52 metra. Nowicki fékk brons í Ríó en nú kom gullið eins og þegar hann varð Evrópumeistari árið 2018.

Norðmaðurinn Eivind Henriksen sló í gegn í keppninni. Hann bætti norska metið í undankeppninni og bætti það síðan þrisvar til viðbótar í úrslitunum. Lengsta kast hans var upp á 81,58 metra sem skilaði honum silfri.

Bronsið fór til Pólverjans Pawel Fajdek sem hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari og einu sinni Evrópumeistari en hann hefur ekki unnið Ólympíugull. Þetta voru hans fyrstu verðlaun á Ólympíuleikum.

Kenía á áfram Ólympíumeistara karla í 800 metrunum eftir fjórða Ólympíugullið í röð í þessari grein í dag.

Keníamenn unnu meira að segja tvöfalt. Emmanuel Korir kom fyrstur í mark á 1:45.06 mín. en landi hans Ferguson Rotich kom sér upp í annað sætið í lokin og kláraði á 1:45.23 mín. fékk síðan brons fyrir hlaup upp á 1:45.39 mín.

Landi þeirra Korir og Rotich, David Rudisha, hafði unnið gullið í Ríó 2016 og London 2012 og Wilfred Bungei varð Ólympíumeistari í Peking 2008. Rússar unnu aftur á móti gullið í Aþenu 2004 þökk sé Yuriy Borzakovskiy.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.