Sport

Eigin­maður Köru sagði frá stóra leyndar­máli hennar á þessum heims­leikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kara Saunders og tveggja ára dóttir hennar Scotti.
Kara Saunders og tveggja ára dóttir hennar Scotti. Instagram/@karasaundo

Ástralska CrossFit konan Kara Saunders hefur ekki verið lík sjálfri sér í fyrstu greinum heimsleikanna. Hún vildi ekki segja opinberlega hvað væri að angra hana en eiginmaðurinn hennar sagði síðan frá leyndarmálinu.

Kara Saunders þótti líkleg til afreka á heimsleikunum í ár en eftir fjórar fyrstu greinarnar þá situr hún í 34. sæti af þeim 36. keppendum sem eru að keppa í kvennaflokki á leikunum.

Þetta er ekki sú Kara sem við erum vön að sjá. Hún náði tuttugasta sætinu í fyrstu greininni en var síðan frá 29. til 36. sæti í hinum þremur. Nú er skýringin komin á þessu slæma gengi áströlsku stjörnunnar.

„Kara mun aldrei nota þetta sem afsökun en ég hélt að það væri best að ég léti fólk vita,“ byrjaði Matt Saunders pistilinn um byrjun eiginkonunnar á þessum heimsleikum.

„Kara fékk kórónuveiruna í ferðalaginu á leiðinni til Bandaríkjanna. Hún var ekki með mikil einkenni og hélt fyrst að hún væri bara með flugþreytu. Hún losnaði hins vegar ekki við flugþreytuna og höfuðverkinn og ákvað því að fara í próf. Það kom jákvætt til baka,“ skrifaði Matt.

Kara fór þá í einangrun. Einkennin fóru að birtast þrettán dögum fyrir heimsleikanna og hún fékk því að keppa á heimsleikunum. Hún fór í próf og af því að það kom neikvætt til baka þá mátti hún keppa. Vandamálið var að kórónuveiran hafði farið illa með öndunarfærin.

„Áður en hún byrjaði þá var hún að glíma við eftirmála frá komu veirunnar og þá aðallega í lungunum. Hún gat aðeins nýtt tíu prósent af lungunum. Hún hélt áfram að keppa á þessum fyrsta degi eins vel og hún gat. Hún gat tekið svona tíu prósent á því áður en hún þurfti að stoppa til að koma súrefni í lungun,“ skrifaði Matt Saunders en það má sjá allan pistil hans hér fyrir ofan.

„Henni leið verr og verr eftir því sem leið á daginn en eins og sönn móðir þá hélt hún áfram að berjast. Hún ætlar að sjá til hvernig hún kemur út úr þessum fyrsta degi og reyna sitt besta að halda áfram svo framarlega sem hún tekur ekki áhættu með heilsu sína,“ skrifaði Matt og hann beindi síðan orðum sínum til Köru sinnar.

„Þú ert lifandi ímynd stríðsmannsins, gefst aldrei upp hvað sem á gengur. Við erum svo stolt af þér. Takk fyrir að vera svona frábær fyrirmynd fyrir Scotti. Við elskum þig,“ skrifaði Matt Saunders.

Heimsleikarnir halda áfram í dag og verður hægt að fylgjast með þeim í beinni hér á Vísi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.