Sport

Anníe Mist átti „undraverðan“ dag og Katrín Tanja ekkert nema bros

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
CrossFit heimurinn fagnaði því að sjá Anníe Mist Þórisdóttir aftur í keppni þeirra bestu. Hún er komin aftur.
CrossFit heimurinn fagnaði því að sjá Anníe Mist Þórisdóttir aftur í keppni þeirra bestu. Hún er komin aftur. Instagram/@roguefitness

Íslensku CrossFit konurnar Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir voru báðar ánægðar með fyrsta daginn sinn á heimsleikunum í CrossFit en þær fá nú tækifæri til að safna orku í dag eftir að hafa klárað fjórar greinar í gær.

Katrín Tanja er í sjötta sæti og Anníe Mist er í tólfta sæti. Þuríður Erla Helgadóttir er síðan í nítjánda sæti. Katrín náði best sjötta sæti í þriðju greininni en Anníe náði best sjöunda sæti í grein númer tvö.

Heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey er að stinga af en hún er með 397 stig af 400 mögulegum eða 57 stigum meira en Haley Adams í öðru sæti, 114 stigum meira en Katrín Tanja og 154 stigum meira en Anníe Mist.

Katrín Tanja og Anníe Mist gerðu báðar upp fyrsta daginn á Instagram síðum sínum.

„Ekkert nema bros eftir fyrsta daginn. Ég elska að keppa. Hvíld á morgun og ég get ekki beðið eftir því að fá að keppa aftur á föstudaginn,“ skrifaði Katrín Tanja eins og sjá má hér fyrir ofan.

Anníe Mist sýndi það og sannaði að hún er komin öflug til baka þrátt fyrir að ekki sé liðið ár síðan að hún eignaðist dótturina Freyju Mist í ágúst í fyrra.

Anníe er að gera betur en hinar mömmurnar í hópnum. Kara Saunders er þannig bara í 34. sæti, 150 stigum á eftir Anníe. Regan Huckaby er i 33. sætinu og Arielle Loewen er i 20. sæti.

„Þetta var undraverður dagur. Ég synti lengra en ég hef áður gert, hljóp hraðar en ég hef gert í meira en tvö ár og fékk að keppa í Colosseum höllinni í fyrsta sinn síðan 2018 og það voru engin vonbrigði,“ skrifaði Anníe Mist.

„Hvíldardagur á morgun og síðan þrír dagar til viðbótar til að prófa hreysti okkar,“ skrifaði Anníe eins og sjá má hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.