Sport

Hefur ekki séð konuna sína í fjóra mánuði en erfiðar æfingar skiluðu Ólympíugulli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigursveit Suður Kóreu í liðakeppninni í skylmingum með gullverðlaun sín.
Sigursveit Suður Kóreu í liðakeppninni í skylmingum með gullverðlaun sín. AP/Andrew Medichini

Suður Kórea vann gull í liðakeppni í skylmingum á Ólympíuleikunum í Tókýó og það er óhætt að segja að Kóreubúarnir hafi verið tilbúnir að fórna miklu fyrir árangur á leikunum í ár.

Skylmingamennirnir Oh Sang-uk, Kim Jun-ho, Kim Jung-hwan og Gu Bon-gil fóru allir í gegnum rosalegar æfingabúðir þar sem klippt var meðal annars á öll samskipti við fjölskyldumeðlimi fyrir utan samskipti í gegnum netið.

Suður Kórea vann 45-26 sigur á Ítalíu í úrslitaleiknum eftir að hafa slegið Þýskaland út í undanúrslitum og Egyptaland út í átta liða úrslitunum.

Þetta voru fyrstu gullverðlaun Suður Kóreu á leikunum fyrir utan sigurgöngu þjóðarinnar í skotfimi.

„Við fórum allir í gegnum mjög erfiðar æfingabúðir. Við fórnuðum eiginlega frelsinu og settum allt okkar í æfingarnar. Það er ástæðan fyrir af hverju við fengum gullverðlaunin um hálsinn,“ sagði Kim Jung-hwan sem er 37 ára gamall.

Kim Jung-hwan gifti sig á síðasta ári en það hefur verið ekkert hjónalíf í langan tíma. Hann hefur ekki séð eiginkonu sína í eigin persónu í fjóra mánuði.

„Ég gifti mig á síðasta ári en við gátum ekki notið okkar fyrsta ári saman. Ég hef þurft að vera burtu í marga mánuði. Það er leiðinlegt en einu samskipti okkar voru í gegnum netið,“ sagði Kim Jung-hwan.

Jung-hwan var að vinna sín önnur gullverðlaun á Ólympíuleikunum því hann var einnig í gullliði Suður Kóreu á leikunum í London 2012. Gu Bongil var einnig í því liði.

Jung-hwan vann einnig brons í einstaklingskeppninni á þessum leikum sem og í Ríó 2016. Hann er fyrsti Asíubúinn í sögunni sem vinnur fern verðlaun í skylmingum á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×