Sport

Gullinn mánudagur fyrir Breta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Peaty fagnar gullverðlaunum sínum í 100 metra bringusundi sem hann var að vinna á öðrum leikunum í röð.
Adam Peaty fagnar gullverðlaunum sínum í 100 metra bringusundi sem hann var að vinna á öðrum leikunum í röð. AP/Martin Meissner

Mánudagurinn 26. júlí 2021 fer í hóp með bestu dögum Bretlands á Ólympíuleikunum því Bretar unnu þrenn gullverðlaun í dag.

Bretarnir sjálfir eru farnir að tala um „Magic Monday“ eða „Magnaðan mánudag“ eftir uppskeru sína í keppni Ólympíuleikanna í Tókýó. Þetta eru fyrstu þrjú gullverðlaun Breta á leikunun í ár.

Þetta eru enn fremur fimmtu Ólympíuleikarnir í röð þar sem Bretar ná þremur gullverðlaunum eða fleiri á sama deginum en fyrir ÓL í Aþenu 2004 hafði það aðeins gerst tvisvar sinnum hjá þeim.

Besti dagur Breta á Ólympíuleikum er laugardagurinn 4. ágúst 2012 þegar Bretar unnu sex gullverðlaun á sama deginum.

Dagurinn byrjaði á því að Adam Peaty vann gull í 100 metra bringusundi þegar hann kom í mark á 57,37 sekúndum og varð um leið fyrsti breski sundmaðurinn sem nær að verja Ólympíugull á milli leikja.

Það er ekki hægt að segja að sigur Peaty hafi komið á óvart því hann á sextán hröðustu tíma sögunnar í 100 metra bringusundi og hefur ekki tapað í greininni í sjö ár á sama tíma og hann hefur slegið heimsmetið fimm sinnum.

Sigur Tom Daley og Matty Lee í samhæfðum dýfingum af tíu metra palli kom aftur á móti mun meira á óvart. Þeir Daley og Lee höfðu þar betur í baráttu við kínverska parið Cao Yuan og Chen Aisen.

Hinn 27 ára gamli Daley er að keppa á sínum fjórðu Ólympíuleikum en var að vinna sín fyrstu gullverðlaun.

Daley og Lee fengu 471.81 stig á móti 470.58 stigum hjá þeim kínversku. Kínverjar vinna þar með ekki alla átta greinarnar í dýfingum á þessum Ólympíuleikum.

Þriðja Ólympíugull dagsins var síðan hjá Thomas Pidcock í fjallahjólreiðum. Hann kom í mark á 1:25:14 klst. og var 20 sekúndum á undan Mathias Flückiger frá Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×