Sport

Tólf ára borð­tennis­spilari sú yngsta á Ólympíu­leikunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hend Zaza er yngsti keppandi Ólympíuleikanna í ár.
Hend Zaza er yngsti keppandi Ólympíuleikanna í ár. Tony Leung/Tennissamband Hong Kong

Hin 12 ára gamla Hend Zaza er yngst keppenda á Ólympíuleikunum sem hefjast í Tókýó í Japan í dag. Hún er fimmti yngsti Ólympíufari sögunnar.

Zaza kemur frá Sýrlandi og ræddi við breska ríkisútvarpið, BBC, um vonir sínar og væntingar ásamt ástæðu þess að hún hóf að æfa borðtennis aðeins fimm ára gömul. Hún er yngsti keppandi á Ólympíuleikunum síðan á leikunum í Mexíkóborg árið 1968.

Zaza er sýrlenskur meistari, ekki aðeins í sínum aldurshópi heldur yfir alla aldurshópa landsins. Þá vann hún undankeppnina í Vestur-Asíu og tryggði sér þannig sæti á mótinu.

„Ég byrjaði að æfa borðtennis því ég vildi vera eins og bróðir minn sem var landsmeistari. Ég horfði á myndbönd af honum keppa og sagði að ég vildi vera eins og hann. Hann hvatti mig til þess og sagði að ef ég myndi leggja hart að mér gæti ég áorkað miklu,“ segir hún meðal annars í viðtalinu við BBC sem sjá má hér að neðan.

Það virðist sem bróðir hennar hafi vitað hvað hann var að tala um en Zaza er nú komin alla leið á Ólympíuleikana aðeins 12 ára að aldri. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×