Umfjöllun og viðtöl: Valur - Leiknir 2-0 | Valsmenn áfram í þriðja gír

Sindri Sverrisson skrifar
Valsmenn verða í skálinni þegar dregið verður í 16-liða úrslit á mánudaginn.
Valsmenn verða í skálinni þegar dregið verður í 16-liða úrslit á mánudaginn. vísir/Hulda Margrét

Valsmenn eru komnir áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta og þurftu síður en svo neina flugeldasýningu til þess, í 2-0 sigri gegn Leiknismönnum.

Valur verður því í skálinni þegar dregið verður í næstu umferð í hádeginu á mánudag en Leiknir þarf enn eitt árið að gera sér að góðu að stimpla sig snemma úr leik í bikarnum.

Hlutirnir hefðu getað þróast öðruvísi hefðu Leiknismenn fengið vítaspyrnu strax í upphafi leiks, eins og þeir vildu. Þeir byrjuðu leikinn ágætlega en úr einni af sínum allra fyrstu sóknum skoruðu Valsmenn og komu sér í þægilega stöðu. Guðmundur Andri Tryggvason var þá aleinn við fjærstöng, eftir sendingu Sigurðar Egils Lárussonar, og kláraði færið af miklu öryggi.

Kanónur fengu hvíld

Bæði lið hvíldu margar af sínum helstu kanónum á bekknum drjúgan hluta leiksins. Hjá Val voru Patrick Pedersen, Haukur Páll Sigurðsson og Hannes Þór Halldórsson raunar á bekknum allan tímann, og miðjumaðurinn mikilvægi í liði Leiknis, Emil Berger, kom heldur ekkert við sögu. Skammt er stórra högga á milli hjá liðunum og álagið talsvert í Pepsi Max-deildinni, þar sem þau hafa að miklu að keppa á sitt hvorum enda stöðutöflunnar, og einhvers staðar þarf að færa fórnir.

Manga Escobar var í fremstu víglínu hjá Leikni og hinn 16 ára gamli Davíð Júlían Jónsson var afar duglegur við að reyna að aðstoða hann. Leiknismenn komust nokkrum sinnum í ágætar stöður og í lok fyrri hálfleiks bjó Escobar til úrvals færi fyrir Octavio Paez sem skaut naumlega framhjá.

Í seinni hálfleik tóku Valsmenn betur við sér og Sverrir Páll Hjaltested var afar nálægt því að auka muninn en Guy Smit tókst einhvern veginn að verja frá honum tvisvar af afar stuttu færi, og Sverrir átti einnig hættulegan skalla rétt framhjá. Þessi tvítugi sóknarmaður skoraði engu að síður seinna mark Vals og það með frábærum skalla eftir fyrirgjöf Guðmundar Andra, á 75. mínútu.

Leiknismenn höfðu hleypt þremur hættulegustu sóknarmönnum sínum inn á rétt áður en Sverrir skoraði en það reyndist náðarhöggið. Einn varamannanna, Sævar Atli Magnússon, komst reyndar í frábært færi, eða var við það að komast í færið þegar Sebastian Hedlund renndi sér í boltann á síðustu stundu.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn búa yfir nægilega miklum gæðum til að geta klárað svona leik án þess að leggja alla sína orku í hann. Sigurður Egill og Guðmundur Andri bjuggu til markið mikilvæga í upphafi leiks og eftir það snerist leikurinn um að þreyta laxinn og það gerðu Valsmenn ágætlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Fátt um dýrðir á Hlíðarenda að þessu sinni en Sebastian Hedlund var öflugur í vörn Vals og Guðmundur Andri gerði gæfumuninn með því að skora eitt mark og leggja upp annað, sem er auðvitað aðalatriðið. Sveinn Sigurður Jóhannesson var svo öruggur í marki Vals þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert spilað undanfarin ár.

Manga Escobar skapaði nokkrum sinnum mikla hættu fyrir Leikni en vantaði aðeins betri aðstoð til að koma boltanum í markið. Guy Smit varði vel og gat ekkert gert í mörkunum tveimur.

Hvað gekk illa?

Leiknismenn fóru í gegnum þriðja leikinn í röð án þess að skora mark og í raun vantaði bara aðeins upp á að nýta færin betur. Það er ekki ýkja óvarlegt að ætla að Sævar Atli hefði skorað að minnsta kosti eitt mark hefði hann spilað allan leikinn. Arnór Smárason lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði Vals en var lítt áberandi og þeir Christian Köhler sköpuðu ekki mikið fram á við.

Hvað gerist næst?

Valur verður í skálinni þegar dregið verður í 16-liða úrslit í hádeginu á mánudaginn. Leikið verður í 16-liða úrslitum 11. og 12. ágúst.

Næsti leikur Vals er í Pepsi Max-deildinni gegn Fylki á Hlíðarenda á sunnudagskvöld. Leiknir tekur svo á móti Víkingi á mánudagskvöld.

Sigurður: Svekkjandi að ná ekki að skora úr þessum færum

„Mér fannst við spila fínan leik, sérstaklega fyrri hálfleik, og það var svekkjandi að ná ekki að skora mörk úr þessum færum sem við fengum,“ sagði Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis.

Hann hleypti þremur öflugum leikmönnum inn á þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en það var ekki endilega áætlunin fyrir leik: „Þetta bara þróaðist þannig. Ég var með þessa á bekknum í dag og skipti þeim bara inn á,“ sagði Sigurður en rétt eftir skiptinguna kom náðarhöggið frá Valsmönnum þegar þeir skoruðu seinna markið:

„Það var bara svekkjandi. Mér fannst við ekki í alveg eins góðum takti í seinni hálfleik eins og þeim fyrri, en já, það að fá á sig mark strax eftir að hafa gert þrefalda skiptingu var vissulega blaut tuska í andlitið,“ sagði Sigurður. Hann tók ekki undir það að meiri ákefð hefði vantað í Leiknismenn á köflum í leiknum, og að bæði það og val á byrjunarliði benti til takmarkaðs vilja til að komast áfram í keppninni:

„Að sjálfsögðu vildum við fara áfram. Mér fannst við mjög góðir í fyrri hálfleik, pressa þá hátt, og það væri gjörsamlega glórulaust ef við vildum ekki fara áfram í keppninni. Við fengum fína sénsa, fullt af þeim, en vantaði að troða boltanum í markið. Við vorum mjög óheppnir þarna nokkrum sinnum,“ sagði Sigurður.

Leiknismenn hafa nú ekki skorað mark í 290 mínútur, en þetta var þriðji leikur þeirra í röð án þess að skora.

„Já, ég er rosalega áhyggjufullur að skora ekki mörk, en þau fara að detta,“ sagði Sigurður.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira