Tónlist

„Við getum öll verið til staðar fyrir hvert annað“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Screenshot 2021-06-07 at 13.34.17

Guðbjörg Elísa, eða Gugga Lisa eins og hún kallar sig, hefur gefið út nýtt tónlistarmyndband við nýja lagið sitt Lífið Er Núna.

Lagið og myndbandið er tileinkað móður Guggu Lísu, henni Kristínu Snæfells Arnþórsdóttur, sem er að berjast við krabbamein og einnig Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. 

Lagið hét upphaflega Lifa og njóta og er lag og texti eftir Þórhall Emil og Einar Höllu en eftir inngrip Guggu Lísu breyttist heiti þess og texti smá.

„Þórhallur fékk mig til að syngja lagið og fékk ég að breyta textanum og titlinum í Lífið er núna. Innblásturinn fékk ég frá einkennisorðum Krafts, Lífið er núna, þar sem textinn inniheldur margt sem að Kraftur leggur áherslu á,“ segir Gugga Lísa. Birgir Örn Magnússon lagði lokahönd á lagið og hljóðvinnsluna.

Guðbjörg hefur samið og sungið frá barnsárum en það er mikil tónlistarmenning í hennar fjölskyldu. Tónlist er hennar stærsta ástríða og nýtur hún einna helst að syngja lofgjörð, sálartónlist, ástarlög og tónlist með fallegum boðskap. Tónlistin hefur hjálpað Guðbjörgu í gegnum hennar stærstu áföll en missti hún bróður sinn úr hvítblæði. Hún var þá þriggja en hann ellefu ára. Einnig missti Guðbjörg ömmu sína úr krabbameini og eins og fyrr greinir er móðir hennar nú að berjast við krabbamein. Því tileinkar Guðbjörg þeim lagið Lífið er núna ásamt öllum þeim sem eru og hafa barist við krabbamein og aðstandendum.

Berst eins og hnefaleikamaður

Álfrún Kolbrúnardóttir, skrifaði handritið að myndbandinu ásamt því að leikstýra og framleiða. Álfrún segist sjálf hafa orðið tilfinningarík og vot í augunum við að hlusta á lagið í fyrsta skiptið.

„Ég sat heima og hlustaði á lagið og skrifaði hugmyndir að handriti og ég fór hreinlega að gráta. Málefnið þykir mér svo ofboðslega fallegt og að finna fyrir því hvernig við getum öll verið til staðar fyrir hvert annað og það er það sem að myndbandið og söguþráðurinn í því táknar. Að hjálpa hvert öðru að finna innri styrkinn,“ segir Álfrún.

Móðir Guðbjargar er ein af aðalleikurum myndbandsins og táknar hennar ferðalag innri styrkinn sem tekinn er beint úr Bíblíunni. I.Kor.9:26 

„Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem enginn vindhögg slær.“

Nú hefur lagið verið gefið út á Spotify og myndbandið er komið á Youtube en einnig má heyra það í spilaranum hér fyrir neðan. 

„Lífið er núna er snýst ekki bara um að sleppa, lifa og njóta því lífið er núna heldur táknar það líka að standa saman og berjast í gegnum hvers konar erfiðleikum. Hlúa að sínum nánustu og sjálfum sér eins mikið og hægt er og njóta þess að lifa í krafti kærleikans sem er ávallt mestur. Hann kennir okkur að festa okkur ekki í erfiðleikunum eða hugsunum, heldur horfa upp til Guðs, sleppa tökunum og njóta þess sem er, á hverri stundu og miðla því til allra að það er sannarlega von þrátt fyrir erfiðleika í hvaða mynd sem þeir birtast. Minna okkur á að vera góð við náungann og gleyma því ekki að vera líka góð við okkur sjálf, ,'' segir Gugga Lísa að lokum.

Klippa: Gugga Lisa - Lífið er núna





Fleiri fréttir

Sjá meira


×