Tónlist

Ekkert lát á vinsældum Måneskin

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Ítalska hljómsveitin Måneskin bar sigur úr bítum í Eurovision 2021.
Ítalska hljómsveitin Måneskin bar sigur úr bítum í Eurovision 2021. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Ekkert lát er á vinsældum hljómsveitarinnar Måneskin sem kom, sá og sigraði Eurovision þann 22. maí síðastliðinn. Sigurlagið hefur rokið upp vinsældalista um allan heim.

Ítalska hljómsveitin hefur vakið mikla athygli á heimsvísu síðan hún sigraði Eurovision fyrir tæpum tveimur vikum. Fyrst fyrir þær sakir að myndskeið af meintri eiturlyfjanotkun söngvarans breiddist út eins og eldur í sinu. Söngvarinn fór þó í eiturlyfjapróf og reyndist það neikvætt. 

Þá hefur sigurlagið Zitti e Buoni náð fyrsta sæti á vinsældalistum Spotify í að minnsta kosti fimmtán löndum, þar á meðal Íslandi. En lagið hefur náð inn á vinsældalista í yfir þrjátíu löndum. 

Sögulegur árangur Ítalíu á Spotify

Zitti e Buoni er fyrsta ítalska lagið í sögunni til þess að komast í efstu tíu sætin á heimslista Spotify, þar vermir lagið 9. sæti. En hljómsveitin er með rúmlega tíu milljónir hlustendur á Spotify.

Lagið situr jafnframt í 17. sæti á vinsældalista Bretlands og er það í fyrsta skipti í þrjátíu ár sem ítalskt lag kemst inn á þann lista.

Þá hefur verið leitað mikið að laginu á tónlistarleitarvélinni Shazam.

Takmarkaðar vinsældir í Frakklandi

Athygli vekur að lagið hefur ekki enn náð inn á vinsældalista í Frakklandi. Frakkar höfnuðu í öðru sæti í keppninni og krafðist Evrópuráðherra Frakklands þess að meint fíkniefnanotkun ítalska söngvarans yrði skoðuð. 

„Ég vil ekki vera tapsár, en hvað ímyndina varðar, megum við ekki leyfa fólki að halda að svona keppnir líði slíka hegðun,“ sagði Clement Beaune, Evrópuráðherra Frakklands. Töluvert var fjallað um meinta neyslu söngvarans í frönskum miðlum.

Hefði reynst fótur fyrir ásökununum í garð ítalska söngvarans má ætla að Ítalíu hefði verið refsað og Frakkar krýndir sigurvegarar Eurovision.

Vinsæl á Íslandi

Hljómsveitin gaf út plötuna Teatro d'ira - Vol. I í vor og náði platan 9. sæti á heimslista Spotify, á eftir stórum nöfnum eins og Justin Bieber og The Weekend. Platan virðist hafa verið vinsæl hér á landi en á vef Plötubúðarinnar, sem selur vínylplötur, sést að hún er uppseld.

Þá seldist allur varningur merktur hljómsveitinni upp á tæpum hálftíma.

Ungt fólk með stóra drauma

Meðlimir Måneskin eru á aldrinum 19-22 ára og stefna hátt. Markmið þeirra er að fá að koma fram á stórum tónlistarhátíðum eins og Primavera Sound, Glastonbury og Coachella. Þá stefnir hljómsveitin einnig á að gera það gott í Bandaríkjunum.

Damiano David, söngvari hljómsveitarinnar, sagði í viðtali að það væri draumur að fá Miley Cyrus til þess að gera ábreiðu af lagi þeirra. Stuttu síðar var greint frá því að söngkonan hefði byrjað að fylgja hljómsveitinni á Instagram. Það er því aldrei að vita hvort draumur hljómsveitarinnar rætist.


Tengdar fréttir

Neikvæð niðurstaða úr fíkniefnaprófi söngvarans

Niðurstöður fíkniefnaprófs söngvarans Damiano David leiddu í ljós að hann hefði ekki neytt fíkniefna á úrslitakvöldi Eurovision söngvakeppninnar. David er söngvari hljómsveitarinnar Måneskin sem fór með sigur af hólmi í keppninni í ár fyrir hönd Ítalíu. 

Ítalía vann Eurovision

Ítalía bar sigur úr býtum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með laginu Zitti e buoni með sveitinni Måneskin og fékk 524 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×