Erlent

Fundu nýtt af­brigði veirunnar í Víet­nam

Sylvía Hall skrifar
Nýja afbrigðið sem hefur greinst í Víetnam er sagt nokkurs konar blanda af því breska og indverska.
Nýja afbrigðið sem hefur greinst í Víetnam er sagt nokkurs konar blanda af því breska og indverska. AP/Hau Dinh

Nýtt afbrigði kórónuveirunnar greindist í Víetnam sem er talið meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Þetta staðfesti heilbrigðisráðherra landsins á laugardag eftir að nokkrir nýsmitaðir reyndust vera með afbrigðið.

Frá þessu er greint á vef AP þar sem segir að hið nýja afbrigði sé nokkurs konar blanda af því indverska og breska sem hafa náð að dreifa sér til fleiri landa. Breska afbrigðið olli miklum usla í Evrópu undir lok síðasta árs en nýverið hefur það indverska verið að greinast í auknum mæli.

Heilbrigðisráðherrann Nguyen Thanh Long segir nýja afbrigðið mögulega ástæðuna fyrir fjölgun smita, en það hefur nú greinst í þrjátíu sveitarfélögum og héruðum í landinu. Ekki er þó vitað til þess að það hafi greinst í öðrum löndum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skrásett fjögur afbrigði veirunnar á heimsvísu sem áhyggjuefni; það breska, indverska, suðurafríska og brasilíska.

Bólusetningar eru hafnar í Víetnam, en þó ekki jafn langt á veg komnar og víða í Evrópu og Bandaríkjunum.AP/Aaron Favila

Baráttan við kórónuveiruna í Víetnam hefur gengið vel hingað til samanborið við aðrar þjóðir. Í byrjun maí höfðu aðeins 3.100 greinst með veiruna þar í landi frá upphafi faraldursins og 35 dauðsföll verið skrásett, en hátt í hundrað milljónir eru búsettar í landinu. Undanfarnar vikur hefur þó smitum fjölgað umtalsvert þar sem 3.500 hafa greinst með veiruna og tólf hafa látist.

Í ljósi stöðunnar hefur verið lagt bann við trúarsamkomum í Víetnam og í stórborgum hafa yfirvöld sett á samkomubann með tilheyrandi lokunum og fjöldatakmörkunum.

Bólusetningar eru hafnar í landinu með bóluefni AstraZeneca og ein milljón verið bólusett. Yfirvöld tryggðu í síðustu viku 30 milljónir skammta frá framleiðandanum Pfizer og er von á þeim á þriðja og fjórða ársfjórðungi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.