Sport

Eitt stærsta blað Japans og heimsins heimtar að Ólympíu­leikunum verði af­lýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andstaða Japana gegn Ólympíuleikunum í sumar er alltaf að aukast enda er kórónuveiran að herja á landsmenn.
Andstaða Japana gegn Ólympíuleikunum í sumar er alltaf að aukast enda er kórónuveiran að herja á landsmenn. AP/Koji Sasahara

Það eru bara tveir mánuðir í að Ólympíuleikarnir í Tókyó eiga að hefjast. Almenningsálitið í Japan er mjög neikvætt gagnvart því að halda leikana í núverandi ástandi í landinu.

Kórónuveirufaraldurinn herjar á Japana sem vörðust veirunni vel þegar hún kom fyrst fram en hafa lent í vandræðum með seinni bylgjur auk þess að það gengur frekar illa að bólusetja fólk í landinu.

Meirihluti Japana vilja ekki að Ólympíuleikarnir fari fram í Tókýó í sumar og nú eru stóru fjölmiðlarnir farnir að kalla eftir því að leikunum verði aflýst.

Asahi Shimbun er næststærsta blað heimsins og gefið út í meira en fimm milljónum eintaka. Það vakti því talsverða athygli þegar sú skoðun kom fram í ritstjórapistli blaðsins þess að Japanir yrðu að hætta við leikana. Asahi Shimbun er meira segja einn af styrktaraðilunum leikanna en afstaðan er skýr.

„Við teljum það ekki skynsamlegt að halda Ólympíuleikana í borginni í sumar,“ kom fram í ritstjórapistlinum og fyrirsögn hans var: „Við heimtum það að Suga forsætisráðherra fresti leikunum“

Ástandið í kórónuveirufaraldrinum er slæmt í Japan en það er þó ekkert sem bendir til þess að Alþjóða Ólympíunefndin eða skipuleggjendur leikanna séu að plana það að hætta við leikana annað árið í röð.

Ritstjórapistillinn er aftur á móti með hreina og skýra kröfu á stjórnvöld í Japan.

„Vantrú á og ósætti með glannalega ríkisstjórn er bara að aukast. Við heimtum það að Suga forsætisráðherra leggi réttmætt mat á stöðuna og ákveði að fresta leikunum í sumar,“ segir í pistlinum.

Japanar hafa þegar eytt 15,4 milljörðum dollara í Ólympíuleikana og Alþjóðaólympíunefndin myndi tapa gríðarlegum sjónvarpstekjum ef leikunum yrði aflýst. Peningapressan er því bara í eina átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×